Erlent

Ekkert lát á ógnandi heræfingum Kínverja í kringum Taívan

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Her eyríkisins Taívan er í viðbragðsstöðu vegna æfinganna.
Her eyríkisins Taívan er í viðbragðsstöðu vegna æfinganna. Getty

Kínverjar tilkynntu í morgun að þeir hefðu framlengt heræfingar sínar í kringum Taívan. Æfingarnar hafa truflað flutninga og flugsamgöngur síðustu daga ásamt því að auka á áhyggjur manna af því að Kínverjar hafi í hyggju að ráðast inn í landið.

Á meðal æfinga eru kafbátaæfingar sem miða að því að koma í veg fyrir flutninga frá Bandaríkjunum til Taívan, kæmi til þess að Kínverjar ráðist inn í landið. Samkvæmt AP fréttastofunni má lesa þetta úr færslum Kommúnistaflokksins á samfélagsmiðlum.

Þá mun herinn framkvæma æfingar með loftskeyti, herþotur og skip sem hafa ítrekað siglt yfir á yfirráðasvæði Taívan á Taívaansundi en þær æfingar eru sagðar svar við heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins, til Taívan.

Kínverjar hafa látið öll áköll um að stilla til friðar sem vind um eyru þjóta og virðist allt stefna í að Kínverjar haldi sundinu í herkví næstu vikur.

Varnarmálaráðuneyti Taívan tilkynnti á sunnudag að alls hefðu um 66 flugvélar og 14 herskip stundað flota- og loftæfingar. Eyríkið hefur brugðist við með því að setja her sinn í viðbragðsstöðu og sent skip og flugvélar til að fylgjast með kínverskum flugvélum, skipum og drónum sem þeir segja „herma eftir árásum á eyjuna“.

Á sama tíma greindi opinber fréttastofa Taívans frá því að her Taívans muni framkvæma stórskotaliðsæfingar í suðurhluta Pingtung-sýslu á þriðjudag og fimmtudag, sem svar við kínversku æfingunum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.