Erlent

Kornút­flutningur hafinn: Fyrsta skipið siglir úr höfn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
M/V Razoni er fyrsta skipið sem siglir úr höfn síðan Rússar hófu innrás í landið 24. febrúar.
M/V Razoni er fyrsta skipið sem siglir úr höfn síðan Rússar hófu innrás í landið 24. febrúar. Getty Images

Kornútflutningur frá Odessa er hafinn en fyrsta skipið sigldi úr höfn í morgun með rúm 26.500 tonn af korni innanborðs. Um tuttugu milljónir tonna bíða útflutnings frá Úkraínu en skipið er það fyrsta sem siglir frá hafnarborginni síðan 26. febrúar.

Samkomulag milli Rússa og Úkraínumanna var undirritað fyrir rúmri viku síðan en ekki hefur tekist að hefja útflutning fyrr en nú. Skipafélög hafa verið varkár en Rússar hafa í tvígang gert loftárásir á Odessa eftir að samkomulagið var undirritað og siglingaleiðir eru krökkar af tundurduflum.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnar fyrstu sendingunni: „Skipið er á leið til hafnar í Trípólí í Líbanon með 26.500 tonn af korni og er skipið það fyrsta sem fer síðan samningurinn var undirritaður fyrir milligöngu Tyrkja hinn 22. júlí,“ sagði talsmaður António Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu. CNN greinir frá.

Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu tekur í sama streng og segir fréttirnar mikinn létti. Hann bindur vonir við að Rússar standi við samninginn, en samkomulagið gildir í 120 daga eða fjóra mánuði. Þegar Rússar hófu innrás sína hinn 24. febrúar voru um hundrað flutningaskip í höfnum Úkraínu við Svartahaf og hafa ekki komist þaðan síðan.


Tengdar fréttir

Úkraínuforseti birtist óvænt á stuttermabol á höfninni í Odessa

Forseti Úkraínu heimsótti óvænt hafnarborgina Odessa ásamt sendiherrum sjö ríkja í dag til að kynna sér undirbúning fyrir útflutning á milljónum tonna af korni frá Úkraínu. Vonir eru bundnar við að útflutningurinn geti hafist í dag eða á morgun.

Skipafélög fara sér hægt við að hefja kornútflutning frá Úkraínu

Skipafélög eru varkár varðandi útflutning á korni frá Úkraínu sem enn hefur ekki hafist þrátt fyrir samkomulag Rússa og Úkraínumanna fyrir milligöngu Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Rússar hafa í tvígang gert loftárásir á Odessa eftir að samkomulagið var undirritað og siglingaleiðir eru krökkar af tundurduflum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×