Enski boltinn

Ronaldo ræðir við Ten Hag um framtíð sína í dag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hittir knattspyrnustjóran Erik ten Hag í dag.
Cristiano Ronaldo hittir knattspyrnustjóran Erik ten Hag í dag. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo mun setjast niður með nýráðnum knattspyrnustjóra Manchester United, Erik ten Hag, í dag til að ræða um framtíð sína hjá Manchester United.

Þessi 37 ára knattspyrnumaður hefur sagst vilja fara frá United í sumar og ferðaðist ekki með liðinu til Ástralíu á undirbúningstímabilinu af persónulegum ástæðum. Ronaldo hefur ekki æft með liðinu í sumar, en er nú mættur aftur til Manchester.

Ten Hag sagði fyrr í sumar að Ronaldo væri ekki til sölu og að hann væri hluti af hans áformum í liðinu á komandi tímabili. Þjálfarinn sagði einnig að þeir hafi átt gott spjall fyrir ferðalagið til Ástralíu, en fjarvera leikmannsins hefur þó ýtt undir þær hugmyndir að leikmaðurinn sé á förum frá félaginu.

Illa hefur gengið hjá þessum markahæsta leikmanni sögunnar að koma sér í annað lið. Hann var um tíma orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea og þá velti fólk einnig fyrir sér hvort endurkoma til Real Madrid væri í kortunum. Nú fyrir stuttu var hann einnig orðaður við Atlético Madrid, en ekkert af þessu virðist ætla að verða að veruleika.

Ronaldo á ár eftir af samningi sínum við United og þá er möguleiki á eins árs framlengingu á samningnum.

United hafnaði í sjötta sæti deildarinnar og liðið missti því af sæti í Meistaradeild Evrópu. Evrópudeildin blasir því við portúgölsku stórstjörnunni í fyrsta skipti á ferlinum, en það er ekki keppni sem helstu sérfræðingar telja að Ronaldo vilji prófa á þessum tímapunkti ferilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×