Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram 3-3 ÍBV | Markaveisla í fyrsta leik í Úlfarsárdal

Sverrir Mar Smárason skrifar
Guðmundur Magnússon fór heim með boltann eftir að hafa skorað þrennu fyrir Fram.
Guðmundur Magnússon fór heim með boltann eftir að hafa skorað þrennu fyrir Fram. Visir/ Diego

Það var sannkölluð markaveisla í Úlfarsárdal þar sem Framarar voru að vígja nýjan heimavöll sinn í kvöld. Sigurlausir Eyjamenn voru í heimsókn en bæði lið skoruðu þrjú mörk fyrir framan mikinn fjölda í Grafarholtinu. 

Full stúka á nýjum heimavelli Fram.Visir/ Diego

Leikur hófst með upphafsspyrnu tveggja goðsagna Fram en Guðmundur Torfason og Pétur Ormslev hófu leikinn við mikið lófaklapp. 45 sekúndum síðar fengu Eyjamenn vítaspyrnu. Elvis Bwomono sendi langa sendingu upp völlinn á Andra Rúnar sem fékk Ólaf Íshólm, markvörð Fram, út á móti sér. Ólafur Íshólm braut á Andra Rúnari, mjög svipað atvik og í síðasta leik gegn KA þegar Ólafur gaf KA-mönnum víti. Andri Rúnar fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega.

ÍBV fagnar fyrra marki Andra Rúnars.Diego

Aðeins um einni og hálfri mínútu síðar var Fram búið að jafna. Þórir Guðjónsson sendi þá langa sendingu upp úr vörninni. Eiður Aron, fyrirliði, og Guðjón Orri, markvörður ÍBV, misreiknuðu báðir sendinguna og Guðmundur Magnússon komst inn í hana. Guðmundur renndi boltanum í autt markið og staðan orðin jöfn.

Guðmundur fagnar fyrsta marki sínu í leiknum.Visir/ Diego

Á 22. mínútu komst ÍBV aftur yfir og nú með umdeildu marki. Þórir Guðjónsson, leikmaður Fram, tognaði og ákvað að sparka boltanum fram völlinn frekar en útaf. ÍBV vann boltann og Alex Freyr Hilmarsson kom honum fram á Andra Rúnar sem virtist vera fyrir innan. Andri Rúnar var hinsvegar ekki fyrir innan því Þórir hafði farið útaf vellinum, fengið leyfi frá aðstoðardómara til þess, og hélt að hann væri úr leik. Reglurnar eru þó þær að leikmaður þarf leyfi frá dómara leiksins og var Þórir því enn hluti af leiknum. Andri Rúnar nýtti færið vel og skoraði sitt annað mark í leiknum.

Andri Rúnar Bjarnason gerði tvö mörk fyrir ÍBV í kvöld.Visir/ Diego

Fram hélt áfram að spila vel líkt og þeir hafa gert í flestum leikjum í ár og þeir uppskáru svo á 38. mínútu þegar Eiður Aron braut á Guðmundi Magnússyni inni í vítateig Eyjamanna. Guðmundur fór sjálfur á punktinn og skoraði en Guðjón Orri, markvörður, var ekki langt frá því að verja. Staðan 2-2 í hálfleik.

Guðmundur skorar úr víti framhjá Guðjóni Orra.Visir/ Diego

Framarar komu öflugir út í síðari hálfleikinn og tóku forystuna á 50. mínútu. Tiago Fernandes fékk þá boltann vinstra megin í teig ÍBV og sendi góða sendingu fyrir markið sem Guðmundur stýrði í netið með bringunni. Stuttu áður hafði Tiago sent svipaða sendingu á Guðmund en hann ekki náð snertingu. Þarna skoraði Guðmundur sitt þriðja mark í leiknum og Fram komið yfir 3-2.

Fram fagnar þriðja marki sínu í leiknum.Visir/ Diego

Fram var líklegra til þess að bæta fleiri mörkum við en á 61. mínútu jöfnuðu Eyjamenn aftur. Sito tók þá aukaspyrnu sem Ólafur Íshólm varði í slánna og boltinn út í teiginn. Elvis Bwomono náði að pota boltanum á Alex Frey Hilmarsson sem lagði hann snyrtilega í netið, 3-3.

Andri Rúnar og Alex Freyr sáttir með jöfnunarmark hins síðarnefnda.Visir/ Diego

Síðasta hálftímann í leiknum reyndu bæði lið að sækja til sigurs. Leikurinn var opinn og skemmtilegur og mikill hiti færðist í leikinn. Framarar vildu fá að minnsta kosti tvær vítaspyrnur til viðbótar en fengu ekki. Mörg spjöld fóru á loft og meðal annars rautt spjald á varamarkmann Fram, Stefán Þór Hannesson. Allt kom þó fyrir ekki og þessum stórskemmtilega leik lauk með 3-3 jafntefli í þessum fyrsta leik karlaliðs Fram á nýjum heimavelli.

Mikill hiti skapaðist undir lok leiks.Visir/ Diego

Af hverju var jafntefli?

Bæði lið klaufaleg í varnarleik sínum. Fram spilaði alla jafna mun betri leik og sköpuðu sér færi eftir mun betur spilaðar sóknir. Þeir voru þó klaufar í öllum mörkunum sem ÍBV skorar. Fimm af sex mörkum kvöldsins voru mjög klaufaleg. Svoleiðis að skortur af gæðum varnarlega urðu til þess að þessi leikur endaði í jafntefli.

Hverjir voru bestir?

Guðmundur Magnússon er að stimpla sig inn sem lang mikilvægasti leikmaðurinn í þessu Fram liði. Skorar þrjú í dag, skorar mörk úr hvaða átt sem er og er búinn að skora 9 mörk í deildinni.

Andri Rúnar Bjarnason virðist vera að komast í betra leikform. Hann var síógnandi og fyrir utan mörkin tvö átti hann einnig gott skot í stöngina.

Fyrir utan þessa tvo voru Indriði Áki og Tiago, miðjumenn Fram, góðir en í liði Eyjamanna lagði Elvis upp tvö mörk og Alex Freyr Hilmarsson bæði skoraði og lagði upp.

Hvað gerist næst?

Bæði lið fara í smá hlé frá deildinni, aftur. Bikarleikir og svo Evrópuleikir.

ÍBV fær Breiðablik svo í heimsókn til Eyja 2. júlí.

Fram fer til Keflavíkur daginn eftir, sunnudaginn 3. júlí.

Guðmundur Magnússon: Mér fannst við bara búa þessi vandamál til sjálfir

Guðmundur var frábær í liði Fram í dag.Visir/ Diego

Guðmundur Magnússon gerði þrennu í leiknum og var bestur á vellinum en það dugði ekki nema í jafntefli í dag.

„Blendnar tilfinningar. Stig er stig og við tökum það. Við erum í þessu til að safna stigum. Spilamennskan er fín en kaflaskipt. Við þurfum aðeins að fara að lengja kaflana til þess að fara að vinna. Þetta er mjög svekkjandi en svona er þetta bara. Það eru komnir tíu leikir og mér finnst við vera vaxandi með hverjum leiknum og ef það heldur áfram þá hef ég engar áhyggjur,“ sagði Guðmundur.

Framarar voru ósáttir við fyrstu tvö mörk ÍBV í leiknum. Eftir áhyggja hefur Guðmundur aðra skoðun.

„Mér fannst við bara búa þessi vandamál til sjálfir. Við erum í sókn á fyrstu mínútu, þeir senda boltann upp langan í gegn og menn eru á hælunum, víti. Mark númer tvö, Tóti er með boltann úti við hliðarlínu. Eins reynslumikill og hann er þá á hann bara að setja boltann útaf og leggjast niður,“ sagði Guðmundur um mörkin tvö.

Guðmundur hefur skorað 9 mörk í 10 leikjum. Hann setti sér markmið fyrir tímabil og er að nálgast það. Hann setur þó ekki þá kröfu á sig að verða markakóngur.

„Ég setti mér markmið fyrir tímabil og er að nálgast það. Þegar ég næ því þá bara endurskoða ég það. Ég er ekkert að pæla í því að enda sem markahæstur. Ég er bara að njóta þess að spila fótbolta og ef mörkin koma þá fagna ég því,“ sagði Guðmundur.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira