Enski boltinn

Ron­aldo trúir að Man Utd geti rétt úr kútnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo er bjartsýnn.
Cristiano Ronaldo er bjartsýnn. James Gill/Getty Images

Framtíð Cristiano Ronaldo hefur verið til umræðu að undanförnu. Talið var að leiðir hins 37 ára gamla Portúgala og Manchester United gætu skilið. Svo virðist ekki vera ef marka má ummæli hans í viðtali við vef Man United.

Þó stuðningsfólk Man Utd vilji helst grafa og gleyma síðustu leiktíð sem fyrst þá átti Ronaldo persónulega ágætis tímabil. Hann skoraði 24 mörk í öllum keppnum og var til að mynda tilnefndur sem leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni.

„Hvað get ég sagt, áhorfendur okkar eru magnaðir. Meira að segja þegar við töpum, þeir styðja alltaf við bakið á okkur og eru alltaf með okkur. Þetta er fólkið sem ber að virða því það fylgir okkur hvert sem við förum.“

Eftir komu Erik Ten Hag í þjálfarastólinn var talið að Ronaldo gæti verið á leið út þar sem Hollendingurinn myndi vilja yngri og sprækari framherja. Svo virðist ekki vera en Ten Hag hefur gefið út að hann sé spenntur að vinna með Ronaldo og það virðist sem Portúgalinn sé sama sinnis.

„Ástríða mín fyrir leiknum hvetur mig enn áfram og lætur mig leggja hart að mér, og auðvitað Manchester United og liðsfélagar mínir sem hjálpa mér á hverjum degi. Ég kann að meta allt það fólk sem hjálpar mér að verða betri.“

„Mikilvægast fyrir mig er að vinna leiki og reyna vinna bikara. Ég trúi því að það eigi að vera markmið Man Utd, þar á félagið heima. Stundum tekur tíma að komast þangað en ég trúi,“ sagði Ronaldo að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×