Enski boltinn

Man United ræður að­stoðar­mann yfir­manns knatt­spyrnu­mála

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andy Boyle mun aðstoða við að móta stefnu Manchester United.
Andy Boyle mun aðstoða við að móta stefnu Manchester United. Sky Sports

Andy Boyle hefur verið ráðinn sem aðstoðarmaður yfirmanns knattspyrnumála hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United. Hann var þjálfari í akademíu félagsins fyrir 16 árum en hefur komð víða við síðan.

Áfram halda breytingarnar á skrifstofu Manchester United. Síðast var staðfest að Ralf Rangnick yrði ekki áfram sem tæknilegur ráðgjafi og nú hefur félagið ráðið aðstoðarmann yfirmanns knattspyrnumála. 

Andy Boyle var þjálfari í akademíu félagsins fyrir sextán árum síðan en hefur undanfarin fimm ár starfað fyrir ensku úrvalddeildina. Hann mun færa sig um set í sumar. Á hann að aðstoða John Murtough – yfirmanns knattspyrnumála sem og annarra sviða félagsins - við að móta stefnu aðalliða Man Utd sem og akademíu félagsins.

Ásamt því að hafa unnið fyrir Man Utd hefur Boyle starfað hjá Liverpool, Coventry City, Wrexham og fyrir enska U-21 árs landsliðið. Hann er spenntur fyrir komandi verkefni og telur að hann geti búið til rétt umhverfi svo Man Utd nái árangri á nýjan leik.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á skrifstofu Man Utd að undanförnu og reikna má með að breytingar á leikmannahópi félagsins verið svipaðar. 

Paul Pogba, Jesse Lingard, Juan Mata, Nemanja Matić og Edinson Cavani eru allir með lausan samning og þá er talið að Erik ten Hag, nýráðinn þjálfari liðsins, sé tilbúinn að hlusta á tilboð í þónokkra leikmenn liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×