Enski boltinn

Stuðningsmaður Tottenham í hópi nýju eiganda Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Todd Boehly var mættur á síðasta leik Chelsea á tímabilinu sem var á móti Watford um síðustu helgi.
Todd Boehly var mættur á síðasta leik Chelsea á tímabilinu sem var á móti Watford um síðustu helgi. Getty/Adam Davy

Todd Boehly hefur farið fyrir samsteypu fjármagnseiganda sem mynda nýjan eigandahóp enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea en það eru aðrir sem eiga nú meira en hann í félaginu.

Enska úrvalsdeildin og bresk yfirvöld hafa nú samþykkt kauptilboð þessa hóps og kaupin eru því endanlega gengin í gegn. Hópurinn greiðir 4,25 milljarða punda eða rúmlega 693 milljarða íslenskra króna fyrir félagið.

Chelsea hafði verið rekið á sérstakri undanþágu hjá breskum stjórnvöldum en sú undanþága átti að renna út 31. maí næstkomandi.

Chelsea var sett á sölu í mars eftir að eigur eiganda félagsins, Roman Abramovich, voru frystar vegna tengsla hans við Vladimir Putin Rússlandsforseta.

Þó að Todd Boehly, sem er meðeigandi hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers í Bandaríkjunum, fari fyrir eigandahópnum þá eru meirihlutaeignandinn fjárfestingarfyrirtækið Clearlake Capital frá Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Aðrir eigendur eru meðal annars bandaríski milljarðamæringurinn Mark Walter sem er líka meðeigandi Dodgers hafnaboltaliðsins en svissneski milljarðamæringurinn Hansjorg Wyss er einnig í hópnum.

Chelsea náði þriðja sætinu í ensku úrvalsdeildinni og komst í báða bikarúrslitaleikina á þessu tímabili sem verður þá alltaf minnst fyrir vandræðin með eigandann.

Ekki bara Todd Boehly

Það er athyglisvert að velta því aðeins fyrir sér hverjir þessu nýju eigendur eru en þar má meðal annars finna Chelsea stuðningsmann, Tottenham stuðningsmann, gúru í almannatengslum, bankamann í New York og aðalsmaður á lávarðadeild breska þingsins.

Simon Johnson hjá Youtube síðunni Tifo Football fer hér fyrir neðan yfir þessa nýju eigendur Chelsea.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Todd Boehly reynir að kaupa Chelsea en 2,2 milljarða punda tilboði hans frá árinu 2019 var hafnað.

Starfsnámið í London

Í myndbandinu er farið yfir uppkomu Boehly og hvernig hann komst yfir alla þessa peninga. Upphafið má rekja til þess þegar hann var í starfsnámu hjá Citibank í London meðfram námi sínu við London School of Economics.

Það var einmitt á þessum árum sem þessi Bandaríkjamaður myndaði sterk tengsl við England og þá sérstaklega London. Fyrsta alvöru starfið hans var þó hjá CS First Boston í New York en það fyrirtæki heitir Credit Suisse í dag.

Lykilskref á hans ferli var sem starfsmaður Guggenheim Partners árið 2000 þegar hann áttaði sig á örlögum orkufyrirtækisins Enron og ráðlagði fjárfestum að koma sér í burtu áður en allt færi til fjandans.

Þegar hann stofnaði Eldridge fyrirtækið árið 2015 var hann orðinn meðeigandi í LA Dodgers. Velgengni Dodgers liðsins á síðustu árum boðar gott fyrir stuðningsmenn Chelsea.

Todd Boehly hefur talað um mikilvægi þess að stuðningsfólk félagsins séu í miðdepli þegar allar stórar ákvarðanir eru teknar. Hann vill líka ekki vera að skipta sér af rekstrinum og vill treysta því fólki sem er þar við störf.

Meira eins og Fenway Sports Group

Það er samt ljóst að Boehly og félagar munu ekki dæla peningum inn í Chelsea eins og Roman Abramovich undanfarna áratugi heldur miklu frekar eins og Fenway Sports Group gerir hjá Liverpool.

Boehly vill auka tekjurnar sem Chelsea getur skapað og hann telur að markaður félagsins í Bandaríkjunum geti stækkað mikið sem og þá vill hann einnig gera betrum bætur á Stamford Bridge leikvanginum.

Í myndbandinu er ekki bara farið yfir Boehly heldur einnig hina í eigandahópnum en þar á meðal er Tottenham stuðningsmaðurinn Jonathan Goldstein sem gerði sig líklega til að kaupa Tottenham árið 2014.

Goldstein býr líka í London og er því mun nærri félaginu en hinir eigendurnir sem eru frá Bandaríkjunum og Sviss. Það má horfa á allt myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×