Enski boltinn

Conte segir að orðrómurinn um PSG séu falsfréttir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Conte segist ekki vera á förum frá Tottenham.
Conte segist ekki vera á förum frá Tottenham. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að þær sögusagnir um að hann vilji taka við Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain á næsta tímabili séu falsfréttir.

Fyrr í vikunni var greint frá því að forsvarsmenn PSG ætli sér að reka Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra liðsins, að tímabilinu loknu og vilji fá Conte til að taka við stjórnartaumunum. Þá greindu nokkrir miðlar frá því að Conte hefði sýnt starfinu áhuga.

Conte hefur hins vegar blásið á þessar sögusagnir, en segist þó ánægður að tekið sé eftir hans störfum.

„Mér finnst það gott að önnur félög kunni að meta það sem ég geri,“ sagði Ítalinn.

„En staðan er þannig að mér líkar það ekki þegar fólk reynir að búa til fréttir. Bara til þess að búa til vandamál. Það er ekki réttlátt gagnvart mér, eða félögunum sem eiga í hlut.“

„Þessi staða sem upp er komin fær mig til að brosa. En ég held að fólkið sem segir svona þurfi að sýna þeim sem verið er að tala um virðingu og ekki búa til falsfréttir og lygar,“ sagði Conte að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×