Fótbolti

PSG ætlar að reka Pochettino og vill fá Conte

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að vera búinn að gera Paris Saint-Germain að frönskum meisturum verður Mauricio Pochettino líklegast ekki við stjórnvölinn hjá liðinu á næsta tímabili.
Þrátt fyrir að vera búinn að gera Paris Saint-Germain að frönskum meisturum verður Mauricio Pochettino líklegast ekki við stjórnvölinn hjá liðinu á næsta tímabili. getty/Xavier Laine

Nýkrýndir Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain ætla að segja knattspyrnustjóranum Mauricio Pochettino upp störfum eftir tímabilið. PSG vill fá Antonio Conte, stjóra Tottenham, til að taka við.

PSG tryggði sér franska meistaratitilinn með 1-1 jafntefli við Lens á laugardaginn. Lionel Messi skoraði mark Parísarliðsins.

Þrátt fyrir titilinn er afar ólíklegt að Pochettino verði áfram við stjórnvölinn hjá PSG. Liðið féll úr leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fyrir Real Madrid og mistókst að vinna franska bikarmeistaratitilinn.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að PSG sé að leggja lokahönd á það að reka Pochettino sem tók við liðinu um þarsíðustu áramót.

Zinédine Zidane er efstur á óskalista PSG en talið er að hann vilji taka við franska landsliðinu eftir HM í Katar. PSG rennir hýru auga til Conte sem tók við Tottenham í byrjun nóvember. Liðið er í harðri baráttu við Arsenal um 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

PSG hefur átta sinnum orðið franskur meistari síðan auðmennirnir frá Katar keyptu félagið 2011. Parísarliðið hefur hins vegar ekki enn tekist að vinna Meistaradeildina og oft fallið úr leik á neyðarlegan hátt í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×