Enski boltinn

Bruno slapp ómeiddur frá bílslysi og verður með í stórleiknum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bruno Fernandes slapp sem betur fer ómeiddur frá bílslysi í morgun.
Bruno Fernandes slapp sem betur fer ómeiddur frá bílslysi í morgun. Simon Stacpoole/Offside/Offside via Getty Images

Betur fór en á horfðist þegar Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, lenti í bílslysi á leið sinni á æfingu liðsins í morgun.

Leikmaðurinn, eins og aðrir sem lentu í slysinu, slapp ómeiddur og gat æft með liði sínu eins og venjulega.

„Hann [Bruno Fernandes] er í lagi og verður klár á morgun,“ sagði bráðabirgðastjóri United, Ralf Rangnick, en United ferðast til Liverpool á morgun þar sem liðið mætir erkifjendum sínum í ensku úrvalsdeildinni.

Leikur Liverpool og Manchester United er gríðarlega mikilvægir fyrir bæði lið. United er enn í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og má ekki við því að misstíga sig. Liðið situr í fimmta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Tottenham sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu.

Liverpool situr hins vegar í öðru sæti deildarinnar og þarf á stigunum að halda í baráttunni við Manchester City um enska deildarmeistaratitilinn. Raunar á Liverpool enn góðan möguleika á að verða fyrsta liðið í sögu enskrar knattspyrnu til að vinna fernuna.

United þarf því á öllum sínum bestu mönnum að halda. Bruno Fernandes hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin tvö tímabil, en Portúgalinn hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur sex fyrir liðsfélaga sína í 30 deildarleikjum á yfirstandandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×