Erlent

Bandaríkin beina spjótum sínum að dætrum Pútíns

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseti á tvæ fullorðnar dætur.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti á tvæ fullorðnar dætur. AP/Mikhail Klimentyev

Bandaríkin, ásamt öðrum G7-ríkjum og Evrópusambandinu, hafa tilkynnt um hertar refsiaðgerðir gegn Rússum, meðal annars vegna hryllingsins í Bucha. Bandaríkin segjast munu sjá til þess að hinir seku verði sóttir til saka og eru refsiaðgerðirnar liður í því. Bandaríkin hafa til að mynda ákveðið að beita fullorðnar dætur Pútíns refsiaðgerðum. 

Fyrr í vikunni gripu Bandaríkin til þess að frysta fjármagn Rússa í Bandaríkjunum fyrir skuldagreiðslur en með nýjustu aðgerðum Bandaríkjanna verður bann sett á nýjar fjárfestingar í Rússlandi og Bandaríkjamönnum bannað að eiga viðskipti við ríkisrekin fyrirtæki í Rússlandi. 

Þá þurfa stærstu rússnesku bankarnir, Sberbank og Alda Bank, að sæta enn frekari takmörkunum, eignir þeirra verða frystar og þeim meinað að stunda viðskipti í Bandaríkjunum.

Einnig verða hátt settir aðilar, og fjölskyldur þeirra, beittir refsiaðgerðum. Má þar til að mynda nefna fullorðin börn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, eiginkonu og dóttur Sergei Lavrov utanríkisráðherra, sem og meðlimi Öryggisráðs Rússa, þar á meðal Smitry Medvedev, fyrrverandi forseta og forsætisráðherra Rússlands, og Mikhail Mishustin forsætisráðherra Rússlands.

„Þessir einstaklingar hafa auðgast á kostnað rússnesku þjóðarinnar. Sum þeirra bera ábyrgð á að veita stuðninginn sem Pútín þurfti á að halda í stríði sínu gegn Úkraínu,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Pútín með dæturnar tvær í Dresden.Gett/Russian Archives

Mestu efnahagsþvinganir sögunnar

„Bandaríkin og fleiri en 30 bandalagsþjóðir og samstarfsaðilar víða um heim hafa lagt til áhrifamestu, samstilltustu, og víðtækustu efnahagsþvinganirnar í sögunni,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Vísað er til þess að það sé viðbúið að verg landsframleiðsla Rússlands muni dragast saman um fimmtán prósent í ár auk þess sem verðbólga hefur aukist um fimmtán prósent og frekari hækkanir í kortunum. 

Ríflega 600 fyrirtæki hafa þá yfirgefið Rússland sem hefur veikt stöðu Rússa verulega á alþjóðamarkaði.

„Svo lengi sem að Rússland heldur áfram hrottafengnum árásum sínum á Úkraínu munum við standa saman með bandalagsþjóðum okkar og samstarfsaðilum við að leggja á Rússa aukinn kostnað fyrir þeirra gjörðir,“ segir í tilkynningunni.

Evrópusambandið tekur nú fyrir fimmta refsiaðgerðarpakkann sinn en þar er til að mynda kveðið á um bann á kolainnflutningi frá Rússlandi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×