Enski boltinn

Roon­ey telur Man. United þurfa yngri og hungraðri leik­menn en Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rooney og Ronaldo voru magnaðir á sínum tíma hjá Man United.
Rooney og Ronaldo voru magnaðir á sínum tíma hjá Man United. Richard Heathcote/Getty Images

Wayne Rooney, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir sitt gamla félag þurfa yngri og hungraðri leikmenn en Cristiano Ronaldo til að lyfta því upp úr þeim öldudal sem það virðist fast í.

Rooney, sem í dag þjálfar Derby County í ensku B-deildinni, var liðsfélagi Ronaldo hjá Man. United frá árinu 2004 til 2009. Með þá innanborðs vann Manchester-liðið nær allt sem hægt var að vinna. Í dag er staðan hins vegar önnur.

Rooney var mættur í Monday Night Football til að fara yfir leik Crystal Palace og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Þar var hann ásamt Jamie Carragher og David Jones þáttastjórnanda.

Carragher, sem er fyrrum leikmaður Liverpool, hafði slæma tilfinningu fyrir því þegar Man United ákvað að festa kaup á 36 ára gömlum Ronaldo síðasta sumar. Portúgalinn er í dag orðinn árinu eldri og Rooney er ekki á því að Ronaldo sé framtíðarlausn fyrir hans fyrrum félag.

„Þú verður að segja nei eins og staðan er í augnablikinu. Hann hefur skorað mörk, mikilvæg mörk í Meistaradeild Evrópu fyrr á leiktíðinni, hann skoraði augljóslega þrennu gegn Tottenham en ef þú horfir til framtíðar þá þarf að velja yngri og hungraðri leikmenn í von um að lyfta Manchester United upp á næstu tveimur til þremur árum,“ sagði Rooney aðspurður hvort kaupin á Ronaldo hefðu gengið upp.

„Cristiano er augljóslega að eldast. Hann er ekki sami leikmaður og hann var þegar hann var á þrítugsaldri. Það gerist, þannig er fótbolti. Hann getur ógnað marki en hvað varðar aðra hluta leiksins þá þarf Man United meira, félagið þarf yngri og hungraðri leikmenn,“ bætti Rooney að endingu við.

Ronaldo verður eflaust ekki sáttur með að heyra skoðun síns fyrrum félaga.Martin Rickett/Getty Images

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×