Von er á norðaustan 5 til 13 m/s í kvöld og á morgun, hvassast norðvestantil. Éljagangur og frost 0 til 6 stig, en bjartviðri og hiti 0 til 4 stig suðvestanlands.
Margir vöknuðu við hæga vestlæga átt og rigningu víða um land, en snjókoma er norðausturhluta landsins. Þegar líður á daginn á að draga úr úrkomu en í kvöld snýst í norðaustanátt með kulda og éljum um norðanvert landið en birtir heldur til.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands en næstu daga er útlit fyrir áframhaldandi norðlægar áttir og kulda á landinu með ofankomu norðantil en bjartviðri syðra.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðaustan 8-15 m/s og él, en þurrt að kalla sunnantil. Frost 0 til 7 stig.
Á miðvikudag og fimmtudag: Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og þurrt og bjart að mestu, en skýjað og dálítil él um landið austanvert. Áfram kalt í veðri og talsvert næturfrost inn til landsins.
Á föstudag og laugardag: Útlit fyriri norðaustlæga eða breytilega átt með él á víð og dreif og fremur kalt í veðri.