Erlent

Segja Rússa ætla að svelta Úkraínumenn til hlýðni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Spá Watling hljómar eins og hrollvekja; saga um her sem fer frá borg til borgar og sveltir íbúa til undirgefni.
Spá Watling hljómar eins og hrollvekja; saga um her sem fer frá borg til borgar og sveltir íbúa til undirgefni. AP/Rodrigo Abd

Jack Watling, sérfræðingur hjá hugveitunni Royal United Services Institute í Lundúnum, segir átökin í Úkraínu vera að færast í annan fasa. Rússar muni einbeita sér að einni borg í einu og freista þess að svelta Úkraínumenn til hlýðni.

BBC hefur eftir Watling að þegar hersveitir sækja áfram gangi þær hratt á eldsneyti, skotfæri og vistir. „Og á meðan þeir hafa mikið af birgðum með sér þá geta þær sótt áfram en það kemur að því að þú þarft að bíða eftir nýjum birgðum,“ segir hann.

Nýjar birgðir berist í skömmtum, sem geti drifið sveitirnar áfram en aðeins takmarkað.

„Þá hægist á taktinum í aðgerðunum. Og það sem við erum að sjá núna eru umskipti frá því að Rússar voru að sjá mönnum fyrir birgðum á mörgum stöðum í sókninni inn í Úkraínu til þess að þeir eru núna að leggja áherslu á einn stað í einu.“

Watling segir Rússa nú leggja drög að því að umkringja Kænugarð en Maríupól sé helsta skotmarkið sem stendur. Þegar borgin falli, geti þeir einbeitt sér að næsta skotmarki.

Markmiðið að valda hungursneyð

Watling segist telja að Rússar muni freista þess að einangra borgirnar frá umheiminum, svelta borgarbúa þar til þeir gefast upp og halda svo áfram. Þannig sé fyrirsjáanlegt að átökin séu að fara í hægari fasa.

Mat Watling rímar við það sem Dmytro Gurin, úkraínskur þingmaður frá Maríupól, sagði í morgun. Hann sagði að íbúar borgarinnar myndu ekki gefast upp en að Rússar myndu heldur ekki hleypa neyðaraðstoð inn í borgina.

„Rússar opna ekki „mannúðarhlið“, hleypa neyðaraðstoð ekki inn í borgina,“ segir Gurin. „Það er núna ljóst að markmið Rússa er að valda hungursneyð til að efla stöðu sína í diplómatískum viðræðum og ef borgin gefst ekki upp, og hún mun ekki gefast upp, þá hleypa þeir fólki ekki burt,“ sagði Gurin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×