Erlent

„Það er kominn tími til að hittast, tími til að tala“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússar hafa ekki útilokað fund milli Selenskís og Pútín.
Rússar hafa ekki útilokað fund milli Selenskís og Pútín. AP

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kallar eftir raunverulegum og sanngjörnum friðarviðræðum, án tafar. „Það er kominn tími til að hittast, tími til að tala. Það er kominn tími til að endurheimta landyfirráð Úkraínu og réttlæti henni til handa.“

Ummælin lét Selenskí falla í ávarpi til þjóðarinnar sem birtist snemma í morgun.

Forsetinn sagði að hinn valkosturinn væri sá að Rússar yrðu fyrir svo miklum skaða að hann yrði ekki bættur á líftíma margra kynslóða. „Stríðið verður að enda. Tillögur Úkraínu liggja á borðinu.“

Misjöfnum sögum fer af því hvernig viðræður ganga en Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur sakað Úkraínumenn um að tefja fyrir. Á sama tíma hafa aðrir fulltrúar Rússa haldið því fram að aðilar séu komnir hálfa leið.

Ávarp Selenskís má sjá með enskum texta hér að neðan.

Sjálfir báru Úkraínumenn þær fréttir til baka í gær og sögðu enn vanta mikið upp á. Ítrekuðu þeir kröfur sínar um varanlegt vopnahlé, sem gefur til kynna að ekki hafi samist um það ennþá. Þá hefur hvorugur aðili minnst á umræður um þær kröfur Rússa að Úkraínumenn sætti sig við innlimun Krímskaga og sjálfstæði Donbas-héraðanna.

Selenskí sakaði rússneskar hersveitir um að hafa skapað neyðarástand í Maríupól, þar sem íbúar hafa verið án vatns, matar og rafmagns í langan tíma. Úkraínumenn segjast hafa ítrekað freistað þess að flytja íbúa á brott en að Rússar hafi ekki staðið við að láta af árásum á meðan.

Forsetinn sagðist munu halda áfram að biðla til annarra þjóðarleiðtoga um að kalla eftir friði í Úkraínu. Hann mun í vikunni ávarpa þing Sviss, Ítalíu, Ísrael og Japan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×