Veður

Gular við­varanir og má all­víða búast við stormi með snjó­komu

Atli Ísleifsson skrifar
Strax í kjölfarið á skilunum kemur hvöss suðvestanátt með dimmum éljahryðjum og skafrenningi þar sem skyggni og færð getur versnað hratt.
Strax í kjölfarið á skilunum kemur hvöss suðvestanátt með dimmum éljahryðjum og skafrenningi þar sem skyggni og færð getur versnað hratt. Vísir/Vilhelm

Með morgninum fara skil yfir landið og má allvíða búast við suðaustan hvassviðri eða stormi með snjókomu og skafrenningi fyrir hádegi.

Á vef Veðurstofunnar segir að strax í kjölfarið á skilunum komi hvöss suðvestanátt með dimmum éljahryðjum og skafrenningi þar sem skyggni og færð geti versnað hratt.

„Það eru gular viðvaranir í gildi um allt land vegna hríðar og ferðalangar eru eindregið hvattir til að skoða veðurspá, athuganir og færð áður en lagt er af stað. Í nótt mældust eldingar í skilunum suður af landi og ekki er ólíklegt að fleiri eldingar mælist í dag í útsynningnum S- og V-lands,“ en þessar gulu viðvaranir eru víðast í gildi fram á miðnætti.

Í nótt dregur svo úr vindinum og úrkomunni og á morgun styttir smám saman upp sunnan- og vestantil á landinu.

„Úrkomubakki virðist hins vegar ætla að koma inn á SA-vert landið síðdegis með snjókomu eða slyddu, en mögulega rigningu um tíma ef hlýja loftið kemst nógu nálægt okkur.

Að mestu hæglætisveður um helgina og hiti um frostmark, en eftir helgi stefnir í breytt veðurfar með hlýnandi veðri og rigningu. Hvort sú spá haldist verður að koma í ljós.“

Spákortið fyrir hádegið.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Allhvöss eða hvöss suðvestanátt í fyrstu og éljagangur, en dregur síðan úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Þurrt um landið NA-vert. Lægir um kvöldið og fer að snjóa eða slydda SA-lands. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag: Suðvestlæg átt 3-10 m/s og stöku él um vestanvert landið, en snjókoma eða rigning SA- og A-til. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og að mestu þurrt, en snjókoma eða slydda A-lands í fyrstu. Hiti um og undir frostmarki, en upp í 5 stig með S-ströndinni.

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag: Suðaustan- og sunnanátt með súld eða rigningu S- og V-lands, annars úrkomulítið. Hlýnar í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×