Erlent

„Að vera leið­togi heimsins þýðir að vera leið­togi friðar“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Samúel Karl Ólason skrifa
Vólódímír Selenskí ávarpaði Bandaríkjaþing í dag.
Vólódímír Selenskí ávarpaði Bandaríkjaþing í dag. AP/Drew Angerer

„Úkraínska fólkið er ekki eingöngu að verja Úkraínu. Við erum að verja gildi Evrópu og gildi heimsins.“

Þetta sagði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, í ávarpi sínu til bandarískra þingmanna í dag. Þar kallaði hann enn og aftur eftir því að Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið kæmu á flugbanni í lofthelgi Úkraínu og stöðvuðu loft- og eldflaugaárásir Rússa á úkraínskar borgir.

Bandaríkjaþing bauð Selenskí velkominn með standandi lófataki og Nancy Pelosi, forseti þingsins, sagði „dýrð sé Úkraínu“ áður en hún bauð Selenskí orðið.

Í ávarpi sínu mynnti Selenskí bandarísku þingmennina á árásirnar á Tvíburaturnana árið 2001, og árásarinnar á Pearl Harbour í seinni heimsstyrjöldinni.

„Illmenni reyndu að breyta borgum ykkar í vígvöll, saklaust fólk varð fyrir árásum. Þið sáuð það ekki fyrir og gátuð ekki stoppað það. Landið mitt upplifir þetta sama á hverjum degi, akkúrat núna, á þessu augnabliki, í heilar þrjár vikur,“ sagði Selenskí. 

Þá sýndi hann bandarískum þingmönnum myndband sem sýndi árásir á Úkraínu og eyðilegginguna þar.

Selenskí vísaði einnig til þess að Bandaríkin séu öflugasta ríki heims og sagði að það að vera leiðtogi heimsins fæli í sér að vera leiðtogi friðar.

Í lok ávarpsins beindi Selenskí orðum sínum beint til Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, og sagðist vonast til þess að Biden tæki það að sér að verða leiðtogi friðar.

„Í dag er ekki nóg að vera leiðtogi þjóðar. Í dag þarftu að vera leiðtogi heimsins. Að vera leiðtogi heimsins þýðir að vera leiðtogi friðar.“


Tengdar fréttir

Úr leyniþjónustunni í forsetahöllina

Á gamlársdag árið 1999, átta árum eftir fall Sovétríkjanna, tilkynnti þáverandi forseti rússneska sambandsríkisins, Boris Jeltsín, að hann hygðist skyndilega stíga til hliðar. Eftirmaður hans birtist í sjónvarpinu rétt fyrir miðnætti til að ávarpa þjóð sína en hann hafði fæstum verið kunnur þar til fimm mánuðum áður, í ágúst 1999, þegar hann hafði verið skipaður forsætisráðherra af Jeltsín. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×