Lífið

Skoraði Pútín á hólm, kallaði yfirmann Roscosmos fávita og grínaðist í harðstjóra Téténíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk, Vladimi Pútín, Ramzan Kadyrov og Dimtrí Rogozin.
Elon Musk, Vladimi Pútín, Ramzan Kadyrov og Dimtrí Rogozin. EPA

Auðjöfurinn Elon Musk, ríkasti maður heims og eigandi SpaceX og Tesla, greip nýverið til Twitter og skoraði Vladimír Pútín, forseta Rússlands, á hólm. Það var á mánudaginn og „taggaði“ Musk Kreml í færslu sinni. Í kjölfar þess hefur hann átt í orðaskiptum við yfirmann Geimvísindastofnunar Rússlands og harðstjóra Téténíu.

Musk hefur í gegnum árin sýnt að hann hefur gaman af því að grínast og jafnvel valda usla á Twitter.

Það verður að segjast að erfitt er að fanga fáránleika nýjustu tísta hans í texta og gera honum almennilega skil en á mánudaginn birti Musk tíst þar sem hann skrifaði:

„Hér með skora ég á Vladimír Pútin í einvígi.“

Þá sagði hann Úkraínu vera undir. Það er að segja að sigurvegarinn fengi Úkraínu. Því næst „taggaði“ hann Kreml og spurði hvort Pútín tæki þessari áskorun.

Í kjölfarið svaraði Dmitrí Rogozin, yfirmaður Roscosmos, Geimvísindastofnunnar Rússlands, Musk með tilvísun í sögu skáldsins Alexander Puskin þar sem hann gerði lítið úr áskorun Musks.

Auðjöfurinn svaraði því í gær og sagði Rogozin harðan samningamann og hét honum stærri hlut af mögulegum áhorfstekjum bardaga síns og Pútíns. Samhliða því birti hann myndir af sér með eldvörpu og breytta mynd af Pútín á baki bjarnar.

Musk vísaði einnig í bókin Fávitinn eftir Fyodor Dostoevsky, þar sem hann gaf í skyn að Rogozin væri fáviti.

Því tísti svaraði Rogozin með skjáskoti af gömlu tísti Musks um að minnst helming tísta sinna skrifaði hann á klósettinu. Yfirmaður Geimvísindastofnunnar Rússlands sagði ríkasta manni jarðarinnar að standa upp af klósettinu og þá gætu þeir talað saman.

Ramzan Kadyrov, harðstjóri Téténíu og náinn bandamaður Pútíns, lét áskorun Musks sig einnig varða. Hann skrifaði á Telegram, þar sem hann er mjög virkur að Musk ætti ekki að grínast með að berjast við Pútín. Sá rússneski myndi fara illa með auðjöfurinn.

Þá lagði Kadyrov til að Musk æfði sig fyrir mögulegan bardaga í Téténíu. Hann færi í herþjálfun, lærði blandaðar bardagalistir og lærði að nota samfélagsmiðla betur.

Musk myndi snúa aftur frá Téténíu breyttur maður.

Musk sagði boð Kadyrovs gott og grínaðist með að slík þjálfun myndi veita honum of mikla yfirburði.

„Ef hann [Pútín] er of hræddur til að slást, samþykki ég að nota bara vinstri höndina og ég er ekki einu sinni örvhentur,“ sagði Musk, sem skrifaði undir sem Elona en það er nafnið sem Kadyrov gaf honum.

Kadyrov skrifaði aðra færslu á Telegram í gærkvöldi þar sem hann vísaði í tíst Musks um að hann hefði neitað að loka á rússneska fjölmiðla í gegnum Starlink-netþjónustu SpaceX.

Þar skrifaði Kadyrov að burtséð frá öllu gríni, þá bæri hann virðingu fyrir slíkum aðgerðum og að fólk fylgdi sannfæringu sinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.