Erlent

Viðræður Úkraínumann og Rússa halda áfram og Bandaríkjamenn biðla til Kínverja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskir hermenn skýla sér fyrir skotárás Rússa í Irpin, nærri Kænugarði.
Úkraínskir hermenn skýla sér fyrir skotárás Rússa í Irpin, nærri Kænugarði. AP/Felipe Dana

Fulltrúar Úkraínu og Rússlands munu ræða saman í dag í gegnum fjarfundabúnað, segir Mykhailo Podoliak, ráðgjafi Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu. Talsmenn beggja þjóða hafa sagt eitthvað orðið ágengt, jafnvel þótt engar vísbendingar séu uppi um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé reiðubúinn til að slá af kröfum sínum.

Podoliak segir vinnuhópa hafa verið að störfum til að fara yfir ýmis mál og að farið verði yfir þau atriði í viðræðunum við Rússa í dag. Podoliak og fulltrúi Rússa sögðu báðir yfir helgina að aðilar hefðu þokast nær hvor öðrum og sagðist Podoliak eiga von á því að viðræðurnar myndu skila einhverri niðurstöðu á næstu dögum.

Talsmenn stjórnvalda í Frakklandi og Þýskalandi sögðu hins vegar að Pútín hefði ekki sýnt mikinn vilja til að láta af hernaðaraðgerðum í Úkraínu, þegar hann ræddi við Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Olaf Scholz, kanslara Þýskalands, í gær.

Annar mikilvægur fundur mun eiga sér stað í dag þegar Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta, mun hitta kollega sinn frá Kína, Yang Jiechi, í Róm. Rússar eru sagðir hafa biðlað til Kína um vopn en Bandaríkjamenn munu fara fram á að Kínverjar blandi sér ekki í átökin. 

Sullivan sagði í samtali við CNN um helgina að Bandaríkin hefðu nú þegar varað Kínverja við því að aðstoða Rússa við að komast framhjá eða milda áhrif efnahagslegra refsiaðgerða Vesturveldanna. Það myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×