Erlent

Fundi ráðherranna lokið: Lavrov heitir því að Rússar verði aldrei aftur háðir Vesturlöndum

Hólmfríður Gísladóttir og Fanndís Birna Logadóttir skrifa
Fundurinn skilaði litlum árangri.
Fundurinn skilaði litlum árangri. AP/Utanríkisráðuneyti Tyrklands

Fundi Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, er lokið. Viðræður ráðherranna skiluðu ekki teljandi árangri en ekki er útilokað að þeir muni funda á ný á næstunni.

Lavrov og Kuleba ræddu meðan annars ástandið í Maríupól, þar sem þúsundir hafa verið án vatns og rafmagns í marga daga og eymd fólks er mikil. Borgin hefur sætt stöðugum árásum og í morgun var greint frá því að þrír hefðu látist þegar eldflaugar lentu á fæðinga- og barnaspítala.

Kuleba sagði Lavrov ekki hafa haft umboð til að semja um „mannúðarhlið“ úr borginni en að hann hefði sagst myndu bera tillögu Úkraínumanna undir stjórnvöld í Moskvu. Kuleba sagði það hafa verið erfitt að funda með Rússum en að hann væri tilbúinn til að gera það aftur.

Ráðherrann sagði jafnframt að brýnast væri að koma á sólahrings vopnahlé og flytja íbúa frá Maríupól. Hann hefði fengið það á tilfinninguna að Rússar væru hins vegar ekki í stöðu til að koma á allsherjarvopnahléi.

Stjórnvöld í Úkraínu væru reiðubúin til að eiga viðræður um lausn en jafnframt reiðubúin til að verja sig.

Segir Rússa ekki hafa í hyggju að ráðast gegn öðrum þjóðum

Lavrov sagði „mannúðarmálin“ hafa verið efst á dagskrá en endurtók staðhæfingar Rússa um að varnarlið Úkraínu héldi almennum borgurum í landinu í gíslingu og að þeir væru notaðir sem „mannlegir skildir“.

Ráðherrann sagði Rússa ekki hafa í hyggju að ráðast gegn öðrum þjóðum en fullyrti á sama tíma að þeir hefðu ekki heldur ráðist gegn Úkraínu. Um væri að ræða „sérstaka hernaðaraðgerð“, sem er sú lína sem Rússar hafa tekið þegar rætt er um innrásina.

Lavrov sagði Vesturlönd sýna „hættulega hegðun“ með því að sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum. Þá hefðu þau „traðkað á“ eignarétti Rússa. Rússar myndu leita leiða til að verða aldrei aftur háðir vesturlöndum og að átökin hefðu gefið þeim nýja sýn á heiminn.

New York Times segir ráðherrann ekki hafa útilokað fund milli Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu. „Ég vona að það verði nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti,“ sagði hann. Leggja þyrfti grunn að því samtali.

Selenskí hefur sagt að eina lausnin til að binda enda á átökin í landinu sé fundur með Pútín en stjórnvöld í Moskvu hafa ekkert gefið út um möguleikann á viðræðum forsetanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×