Erlent

Óvíst hvort Úkraínumenn fá MiG-þoturnar en Bandaríkjamenn senda Patriot-kerfi til Póllands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn hyggjast senda tvö Patriot-eldflaugakerfi til Póllands. Myndin var tekin þegar Rúmenar fengu sitt fyrsta kerfi árið 2020.
Bandaríkjamenn hyggjast senda tvö Patriot-eldflaugakerfi til Póllands. Myndin var tekin þegar Rúmenar fengu sitt fyrsta kerfi árið 2020. epa/Robert Ghement

Algjör óvissa ríkir um það hvort Úkraínumenn fái MiG-29 herþotur frá Póllandi eftir nokkurn vandræðagang bandarískra og pólskra stjórnvalda. Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Pólland í dag þar sem málið verður líklega á dagskrá.

Bandaríkjamenn, þeirra á meðal utanríkisráðherrann Antony Blinken, höfðu talað um það frá því um helgina að Pólverjar gætu séð Úkraínumönnum fyrir MiG-þotum, mögulega gegn því að fá sjálfir þotur frá Bandaríkjunum og fleirum.

MiG-þoturnar eru þær herþotur sem úkraínskir hermenn kunna að fljúga.

Stjórnvöld í Póllandi tóku hugmyndinni fálega en tilkynntu svo skyndilega í gær að þau væru reiðubúin til að senda 26 þotur til Þýskalands, þar sem Bandaríkjamenn myndu taka við þeim og sjá um að koma þeim áfram til Úkraínu.

Þetta hugnast Bandaríkjamönnum hins vegar ekki og sögðu talsmenn þeirra tillögu Pólverjar hafa komið á óvart. Sögðu þeir ekki koma til greina að fljúga þotunum frá Þýskalandi inn í lofthelgi Úkraínu, þar sem hernaðaraðgerðir Rússa stæðu yfir.

Bandaríkin hafa hins vegar tilkynnt að þau hyggist senda tvö Patrio-eldflaugakerfi til Póllands, til að efla varnir Atlantshafsbandalagsins og freista þess að hindra að átökin í Úkraínu teygi sig yfir landamærin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×