Erlent

Visa og Mastercard loka á Rússa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Visa og Mastercard taka þátt í viðskiptaþvingunum vegna stríðsins.
Visa og Mastercard taka þátt í viðskiptaþvingunum vegna stríðsins. Vísir/AP

Visa og Mastercard hafa tilkynnt að þau muni loka á viðskipti Rússa erlendis sem og notkun erlendra aðila í Rússlandi.

Tilkynning Visa barst fyrr í kvöld og þar kemur fram að fyrirtækið ætli að vinna með viðskiptavinum sínum í Rússlandi að því að loka á allar færslur á næstu dögum.  Þá verður hvorki hægt að nota kort erlendis sem gefin eru út í Rússlandi né verður hægt að nota kort í Rússlandi sem gefin eru út í öðrum löndum.

„Við neyðumst til að bregðast við þessari tilefnislausu árás Rússa og þeirra óafsakanlegu atburða sem við höfum orðið vitni að,“ sagði Al Kelly forstjóri Visa.

„Við hörmum þau áhrif sem þetta mun hafa á góða samstarfsaðila og þeirra viðskiptavini og korthafa í Rússlandi. Við bregðumst við þessu stríði og ógn þess á heimsfrið samkvæmt okkar gildum.“

Mastercard fylgdi í kjölfarið og tilkynnti að þeir myndu loka á öll sín kerfi í Rússlandi. Þeir sögðu ákvörðunina ekki hafa verið auðvelda enda hafi fyrirtækið starfað í Rússlandi í meira en tuttugu og fimm ár. 

Ákvörðun fyrirtækjanna kemur í kjölfar þess að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, óskaði eftir því á fundi með þingmönnum Öldungadeildar Bandaríkjanna að fyrirtækin myndu grípa til aðgerða í Rússlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×