Erlent

Blaðamannafélagið safnar fyrir úkraínska blaðamenn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Blaðamannafélagið hefur hafið söfnun til stuðnings úkraínskum blaðamönnum. 
Blaðamannafélagið hefur hafið söfnun til stuðnings úkraínskum blaðamönnum.  Vísir/Vilhelm

Blaðamannafélag Íslands hefur hafið fjársöfnun til stuðnings blaðamönnum í Úkraínu. Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að mikilvægi fjölmiðla á stríðstímum sé óumdeilt og blaðamenn í Úkraínu þurfi aðstoð til að geta stuðlað að öryggi sínu á meðan þeir miðli til umheimsins fréttum af ástandinu í kjölfar innrásar Rússa. 

„Sannleikurinn er eitt það fyrsta sem lætur undan í stríði og því er mikilvægt að styðja við bakið á blaðamönnum til þess að þeir geti haldið áfram að miðla honum. Úkraínskir blaðamenn starfa við stórhættulegar aðstæður og skortir bæði öryggisbúnað og annan búnað sem við getum aðstoðað þau við að komast yfir,“ segir í tilkynningunni sem undirrituð er af Sigríði Dögg Auðunsdóttur formanni blaðamannafélagsins. 

Þar segir að samkvæmt upplýsingum sem félaginu hafi borist skorti helst öryggisbúnað á borð við skotheld vesti og hjálma en einnig hjálpargögn til fyrstu hjálpar. Þá verði mögulega þörf á fjárstuðningi tl blaðamanna sem þurfi að flýja vettvang og koma sér á öruggari slóðir, innan eða utan Úkraínu. 

Þá hyggist Blaðamannafélagið einnig styrkja söfnunina en hvetur félagsmenn og hvern þann sem vill styrkja málefnið til að leggja inn upphæð að eigin vali inn á reikning í umsjón félagsins. Finna má reikningsupplýsingar hér. 

BÍ er í samskiptum við hin blaðamannafélögin á Norðurlöndunum, NFJ og Evrópsku blaðamannsamtökin, EFJ, um hvernig best er að koma fjármagninu sem safnast þangað sem það nýtist best. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×