Erlent

Er­lendum ríkis­borgurum meinað að flýja Úkraínu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Erlendir ríkisborgarar, sérstaklega þeir sem eru dökkir á hörund, hafa lent í vandræðum við að flýja Úkraínu. Mörgum þeirra hefur verið meinað að fara um borð í lestar og rútur og segjast margir hafa orðið fyrir barsmíðum landamæravarða.
Erlendir ríkisborgarar, sérstaklega þeir sem eru dökkir á hörund, hafa lent í vandræðum við að flýja Úkraínu. Mörgum þeirra hefur verið meinað að fara um borð í lestar og rútur og segjast margir hafa orðið fyrir barsmíðum landamæravarða. Getty/Murat Saka

Erlendir ríkisborgarar, sérstaklega af afrískum uppruna, hafa lent í miklum vandræðum við að flýja Úkraínu. Margir þeirra segja að þeim hafi verið vísað úr lestum og þeim meinaður aðgangur að almenningssamgöngum á leið úr landinu.

„Afríkumenn, sem vilja flýja, eru vinir okkar og verða að hafa jöfn tækifæri til að snúa aftur til heimalanda sinna á öruggann hátt,“ skrifar Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, í tísti í dag. 

Erlendir ríkisborgarar, sérstaklega þeir sem eru af afrískum uppruna, hafa glímt við mikla erfiðleika á landamærum Úkraínu og þegar þeir hafa reynt að flýja heimaborgir sínar. Mörgum þeirra hefur verið meinaður aðgangur að lestum og þar að auki neitað far frá landamærum Úkraínu í nágrannalöndunum. Sumir þeirra hafa þar að auki orðið fyrir barsmíðum að sögn. 

Kuleba segir úkraínsk yfirvöld ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að takast á við vandamálið.

Fram kemur í frétt CNN að nígerski læknaneminn Rachel Onyegbule, sem blaðamaður fréttastofunnar ræddi við, hafi verið rekinn út úr rútu, auk annarra erlendra ríkisborgara, sem ætlað var að flytja flóttamenn frá landamærum Úkraínu og Póllands. Rútan hafi skilið þau eftir og keyrt í burtu full af úkraínskum ríkisborgurum. 

Saakshi Ijantkar, indverskur læknanemi, segist hafa lent í svipuðum aðstæðum. Hún hafi séð landamæraverði beita erlenda stúdenta ofbeldi þegar þeir biðu þess að komast yfir landamærin við landamærastöðina Shehyni-Medyka frá Úkraínu. 

Human Rights Watch segir þá í yfirlýsingu að nauðsynlegt sé að úkraínsk yfirvöld gefi út skýrar leiðbeiningar til allra landamæravarða um að erlendir ríkisborgarar ættu ekki að vera skotmörk þeirra og þeim ekki meinað að komast örugglega yfir landamærin. Allir almennir borgarar ættu að komast á öruggan hátt yfir landamærin og landamæraverðir ættu að koma eins fram við þá alla. 


Tengdar fréttir

Veru­leiki Úkraínu­manna á sjöunda degi stríðs

Fátt grípur veruleikann betur en ljósmyndir enda segja þær meira en þúsund orð. Það getur reynst okkur á Íslandi erfitt að gera okkur grein fyrir veruleika Úkraínumanna þessa dagana. 

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir 220 milljörðum króna vegna Úkraínu

Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar hjálparstofnanir hafa í sameiningu farið fram á 1,7 milljarða Bandaríkjadala fjárveitingar í þágu Úkraínu, um 220 milljarða íslenskra króna. Framlögin fara til nauðstaddra í Úkraínu og flóttamanna í nágrannalöndum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óttast mesta flóttamannastraum aldarinnar í Evrópu frá Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×