Erlent

Merkel fylgist áhyggjufull með þróuninni

Snorri Másson skrifar
Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz tók nýverið við embætti kanslara af Angelu Merkel.
Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz tók nýverið við embætti kanslara af Angelu Merkel. AP

Angela Merkel, fyrrverandi Þýskalandskanslari, hefur fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og stendur að sögn þýskra miðla þétt við bakið á sporgöngumanni sínum í embætti, Olaf Scholz kanslara.

„Árás Rússlands markar djúpstæðan brest í sögu Evrópu eftir endalok kalda stríðsins,“ sagði Merkel í samtali við DPA.

„Það er ekkert sem réttlætir svona ótvírætt brot á þjóðarrétti og ég fordæmi það alfarið. Á þessari skelfilegu stund hugsa ég til og stend með úkraínsku þjóðinni og forseta hennar Vlodomír Selenskí.“

Merkel segir að hún muni styðja alla viðleitni Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins til að stöðva innrás Rússa. Hún sé að fylgjast með framvindunni - mjög áhyggjufull og full samúðar.

Í embættistíð sinni átti Merkel jafnan tiltölulega gott samband við Vladimír Pútín Rússlandsforseta og er hún sögð hafa lagt á það sérstaka áherslu að halda tengslunum í sem bestum farvegi. 

Kanslaraskiptin 2005. Gerhard Schröder og Angela Merkel.visir

Af öðrum fyrrverandi könslurum er það að segja að Gerhard Schröder, sem var kanslari á undan Merkel frá 1998-2005, er stjórnarformaður rússneska ríkisfyrirtækisins Gazprom og er mikilvirkur leikandi í rússneska orkugeiranum. Gazprom flytur gas til Evrópu. Hann er gagnrýndur þessi dægrin fyrir hollustu sína við Rússa en eins og þekkt er snúast yfirstandandi átök ekki síst um umsvif Rússa í orkuviðskiptum við Evrópu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×