Veður

Appel­sínu­gular við­varanir þegar ó­veður gengur yfir landið í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Nú er vaxandi suðaustanátt og má reikna með stormi eða roki þegar kemur fram á daginn með snjókomu í fyrstu.
Nú er vaxandi suðaustanátt og má reikna með stormi eða roki þegar kemur fram á daginn með snjókomu í fyrstu. Veðurstofan

Djúp lægð, um 950 millibara, er komin inn á Grænlandshaf og sendir hún óveður yfir landið í dag. Appelsínugular eða gular viðvaranir hafa verið gefnar út um allt land.

Á vef Veðurstofunnar segir að nú sé vaxandi suðaustanátt og má reikna með stormi eða roki þegar kemur fram á daginn með snjókomu í fyrstu. Síðar megi reikna með talsverðri rigningu eða slyddu á láglendi. Hlýnar í veðri, hiti eitt til sex stig síðdegis.

Viðvaranir:

Höfuðborgarsvæðið:

 • Appelsínugul viðvörun, 25. febrúar 11-17.

Suðurland:

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 7-11
 • Appelsínugul viðvörun, 25. febrúar 11-17.

Faxaflói:

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 8-11
 • Appelsínugul viðvörun, 25. febrúar 11-17:30.

Breiðafjörður:

 • Appelsínugul viðvörun, 25. febrúar 13-18.

Vestfirðir:

 • Appelsínugul viðvörun, 25. febrúar 14-19.

Strandir og Norðurland vestra

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 14-19:30

Norðurland eystra

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 15-21

Austurland að Glettingi:

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 14-22

Austfirðir

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 12-19

Suðausturland

 • Gul viðvörun: 25. febrúar 12-19

„Hvessir einnig um landið norðaustanvert uppúr hádegi og þar má búast við skafrenningi og dálítilli snjókomu, hlýnar upp að frostmarki á þeim slóðum.

Þegar suðaustan óveðrið hefur lokið sér af snýst í allhvassa sunnanátt með skúrum eða slydduéljum. Þessi snúningur gerist á mismunandi tímum á mismunandi stöðum á landinu, tökum dæmi um tímasetningar: á höfuðborgarsvæðinu milli kl. 16 og 17, á Egilsstöðum milli kl. 20 og 21.

Á morgun (laugardag) má gera ráð fyrir sunnan og suðvestan strekkingi með éljum nokkuð víða, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Það kólnar og hiti kringum frostmark á morgun.

Á sunnudag róast veðrið síðan meira, þá er útlit fyrir suðlæga golu eða kalda með éljum, gæti orðið fallegt vetrarveður milli éljanna. Á Norður- og Austurlandi er ekki gert ráð fyrir úrkomu. Frystir um mestallt land,“ segir á vef Veðurstofunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.