Erlent

Rússar fá að keppa í Eurovision þrátt fyrir allt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rússar munu fá að taka þátt í Eurovision í ár þrátt fyrir innrás í Úkraínu.
Rússar munu fá að taka þátt í Eurovision í ár þrátt fyrir innrás í Úkraínu. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Rússland mun fá að taka þátt í Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, þrátt fyrir innrás í Úkraínu. Þetta tilkynntu skipuleggjendur keppninnar í hádeginu.

Skipuleggjendur segja að keppnin sé „ópólitískur menningarlegur viðburður“ og segja ekki koma til greina að Rússlandi verði bannað að taka þátt í keppninni, sem fer fram á Ítalíu í maí. 

Keppnin er sú sjöttugasta og sjötta og mun fara fram í Tórínó á Ítalíu eftir að ítalska rokksveitin Måneskin sigraði keppnina í fyrra. 

Evrópusambandið hefur fordæmt innrás Rússa á Úkraínu í dag, auk fleiri ríkja, og boða harðar viðskiptaþvinganir. 

„Eurovsion er ópólitískur menningarlegur viðburður sem sameinar þjóðir og fagnar fjölbreytileika  með tónlist. Meðlimir Evrópsku sjónvarpsstöðvanna bæði í Rússlandi og Úkraínu hafa heitið því að taka þátt í keppninni í Tórínó og við ætlum, eins og staðan er núna, að bjóða listamenn frá báðum löndum velkomna í maí,“ segir í yfirlýsingu Evrópusku sjónvarpsstöðvanna. 

„Við munum að sjálfsögðu fylgjast áfram grannt með stöðu mála.“

Bara í síðustu viku ákvað Úkraínska ríkisútvarpið að senda ekki hina 28 ára gömlu Alinu Pash í Eurovision fyrir hönd landsins. Söngkonan ferðaðist til Krímskaga fyrir tæpum sjö árum síðan og ríkisútvarpið segir ferðalagið sérstaklega til skoðunar. 

Pash sigraði Vidbir, innlendu söngvakeppnina í Úkraínu fyrr á árinu, með laginu Shadows of Forgotten Ancestors. Ríkisútvarpið hafði ekki gert endanlegan samning við söngkonuna um þátttöku hennar í keppninni en nýlega bárust fregnir af ferðum hennar til Krímsskaga árið 2015.

Í stað hennar mun rappsveitin Kalush Orchestra keppa fyrir hönd Úkraínu með lagið Stefania. Rússland hefur enn ekki tilkynnt sitt framlag. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×