Veður

Vindur róast en reikna má með slyddu eða snjó­komu

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með kólnandi veðri.
Reikna má með kólnandi veðri. Vísir/Vilhelm

Nú er vindur að róast á Suður- og Vesturlandi, þar má þó búast við slyddu eða snjókomu fram eftir morgni. Eftir hádegi er útlit fyrir stöku él á þessum slóðum.

Á vef Veðurstofunnar segir að norðan- og austanlands sé enn allhvöss eða hvöss suðaustanátt og jafnvel stormur til fjalla. Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi til klukkan 17 í dag.

„Dálítil snjókoma eða slydda á Norður- og Austurlandi, en meiri ofankoma á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hitinn á landinu í dag verður kringum frostmarkið.

Á morgun lægir síðan meira og verður fremur hægur vindur víðast hvar. Snjókomu og éljabakkar eru á sveimi allt í kringum landið og munu fáir eða engir landshlutar sleppa við ofankomu áður en morgundagurinn er úti. Hitinn þokast niðurávið og útlit er fyrir frost 0 til 5 stig á morgun,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákortið fyrir klukkan 15.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan 5-13 m/s, skýjað og dálítil snjókoma eða él á austurhelmingi landsins. Frost 0 til 5 stig. Vestlægari og líkur á snjókomu á suðvesturhorninu um kvöldið.

Á fimmtudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 og stöku él, einkum við sjávarsíðuna. Frost 1 til 8 stig.

Á föstudag: Fremur hæg norðaustan- og austanátt. Víða bjartviðri, en lítilsháttar él norðaustan- og austanlands. Frost 2 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag: Vaxandi austlæg átt. Snjókoma af og til á sunnanverðu landinu og minnkandi frost. Hægari vindur norðantil, þurrt að kalla og frost að 10 stigum.

Á sunnudag: Austan og norðaustan hvassviðri eða stormur. Snjókoma með köflum, en slydda með suðurströndinni. Frost 0 til 4 stig, en frostlaust syðst.

Á mánudag: Austlæg átt, stöku él og frost 0 til 5 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×