Enski boltinn

Liverpool hefur miklar áhyggjur af höfuðhöggi Mane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane gæti þurft að glíma lengi við eftirmála höfuðhöggsins eftir að vera leyft að spila áfram.
Sadio Mane gæti þurft að glíma lengi við eftirmála höfuðhöggsins eftir að vera leyft að spila áfram. EPA-EFE/PETER POWELL

Senegal hefur fengið á sig talsverða gagnrýni fyrir meðhöndlun sína á Liverpool leikmanninum Sadio Mane í leik Senegal og Grænhöfðaeyja í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar.

Mane fékk mikið höfuðhögg í leiknum en var ekki tekinn af velli. Hann fór ekki af velli fyrr en sextán mínútum síðar en hafði þá skorað fyrsta mark Senegal í leiknum.

Samstuð Mane og markvarðarins Vozinha hjá Grænhöfðaeyjum leit mjög illa út og það er margsannað hversu slæmar langtímaafleiðingar það getur haft fyrir íþróttafólk að halda áfram að spila með heilahristing.

Mane ber sig samt vel og segist vera í lagi. „Það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari,“ skrifaði hann á Teitter.

Afríska knattspyrnusambandið segir að læknalið Senegal beri alla ábyrgð á því að Mane spilaði áfram en ekki sambandið. Sambandið gaf það líka út að þeir Mane og Vozinha hafi verið skoðaðir og niðurstaða þess hafi verið allt liti eðlilega út hjá þeim.

Vozinha fékk rautt spjald fyrir samstuðið en það þurfti líka að aðstoða hann af velli. Mane spilaði áfram þrátt fyrir að líta út fyrir að missa meðvitund við samstuðið.

Liðslæknir Senegal, Abdourahmane Fedior, sagði að Mane hafi verið tekinn af velli af því að honum hefði svimað eftir að hann skoraði markið.

„Eftir það fannst okkur öruggara að fara með hann í myndatöku á sjúkrahúsi en sú myndataka sýndi engan heilaáverka eða beinskemmdir. Við yfirgáfum sjúkrahúsið stuttu síðar og fórum upp á hótel. Honum líður vel,“ sagði Abdourahmane Fediorí yfirlýsingu.

„Öll einkennin sem hann var með inn á vellinum hurfu. Við þurfum samt að fylgjast vel með honum og munum sjá betur hvernig honum líður eftir tvo daga. Hann þarf að hvíla sig og koma aftur á æfingar rólega,“ sagði enn fremur í þessari yfirlýsingu.

Læknalið Liverpool mun ræða við kollega sína hjá senegalska landsliðinu en það er líka venjan þegar leikmenn meiðast í landsliðsverkefnum. Það þarf ekkert að koma neinum á óvart að Liverpool hefur miklar áhyggjur af höfuðhöggi Mane enda algjör lykilmaður hjá liðinu.

Kalidou Koulibaly, fyrirliði Senegal, neitar því að Senegal hafi tekið áhættu með heilsu Mane með því að leyfa honum að spila áfram.

„Það var engin áhætta tekin. Það var hann sem skoraði markið eftir allt þetta,“ sagði Kalidou Koulibaly.

„Þegar við sáum að hann var eitthvað áttavilltur eftir markið þá töldum við það rétta að taka hann af velli. Ég spurði hann hvort hann vildi fara af velli og hann sagði nei. Við ákváðum samt að taka hann út til að forðast það að taka einhverja áhættu,“ sagði Koulibaly.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×