Í frétt The Telegraph um leikmannamál Newcastle kemur fram að liðið sé á höttunum á eftir allt upp að fimm leikmönnum til viðbótar við þá Kieran Trippier og Chris Woods.
Newcastle er sem stendur statt í heimalandi eiganda félagsins, Sádi-Arabíu, til að æfa í betra veðri en gengur og gerist í Norður-Englandi. Þó Manchester United eigi enn eftir að samþykkja tilboð Newcastle í Lingard virðist sem líkurnar séu meiri en minni að þau félagaskipti fari í gegn.
The club are pushing to sign as many as five players in a hectic final week of the January transfer window | @LukeEdwardsTele
— Telegraph Football (@TeleFootball) January 24, 2022
Lingard sjálfur er staddur í Dúbaí þar sem hann er nú við æfingar. Hann bíður svars frá forráðamönnum Man Utd varðandi möguleg félagaskipti. Þó leikmaðurinn verði samningslaus í sumar er ekki talið að Newcastle muni kaupa hann, þess í stað mun félagið fá hann á láni.
Newcastle myndi þá borga Man Utd fimm til sex milljónir punda sem og öll laun leikmannsins en þau eru í kringum 80 þúsund pund á viku.
Þá er Howe, þjálfari liðsins, einnig að íhuga að reyna fá Dele Alli á láni frá Tottenam Hotspur sem og Aaron Ramsey, leikmann Juventus, til að fríska upp á miðju liðsins. Til að þétta raðirnar aftast er verið að tala við Sevilla varðandi brasilíska miðvörðinn Diego Carlos.
Enski miðvörðurinn James Tarkowski er einnig á óskalista Newcastle en talið er nær ómögulegt að Burnley muni selja Newcastle annan lykilmann en bæði lið eru í bullandi fallbaráttu þegar tímabilið á Englandi er rúmlega hálfnað.