Enski boltinn

New­cast­le bjart­sýnt á að fá Lingard, Dele eða Rams­ey fyrir glugga­lok

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Newcastle vill aðeins leikmenn sem kunna að klappa.
Newcastle vill aðeins leikmenn sem kunna að klappa. EPA Images

Það gengur frekar brösuglega hjá Newcastle United að nýta nýtilkomið ríkidæmi sitt en Eddie Howe stefnir á að fá inn fleiri leikmenn áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðarmótin. Meðal nafna sem eru orðuð við félagið eru Jesse Lingard, Dele Alli og Aaron Ramsey.

Í frétt The Telegraph um leikmannamál Newcastle kemur fram að liðið sé á höttunum á eftir allt upp að fimm leikmönnum til viðbótar við þá Kieran Trippier og Chris Woods.

Newcastle er sem stendur statt í heimalandi eiganda félagsins, Sádi-Arabíu, til að æfa í betra veðri en gengur og gerist í Norður-Englandi. Þó Manchester United eigi enn eftir að samþykkja tilboð Newcastle í Lingard virðist sem líkurnar séu meiri en minni að þau félagaskipti fari í gegn.

Lingard sjálfur er staddur í Dúbaí þar sem hann er nú við æfingar. Hann bíður svars frá forráðamönnum Man Utd varðandi möguleg félagaskipti. Þó leikmaðurinn verði samningslaus í sumar er ekki talið að Newcastle muni kaupa hann, þess í stað mun félagið fá hann á láni.

Newcastle myndi þá borga Man Utd fimm til sex milljónir punda sem og öll laun leikmannsins en þau eru í kringum 80 þúsund pund á viku.

Þá er Howe, þjálfari liðsins, einnig að íhuga að reyna fá Dele Alli á láni frá Tottenam Hotspur sem og Aaron Ramsey, leikmann Juventus, til að fríska upp á miðju liðsins. Til að þétta raðirnar aftast er verið að tala við Sevilla varðandi brasilíska miðvörðinn Diego Carlos.

Enski miðvörðurinn James Tarkowski er einnig á óskalista Newcastle en talið er nær ómögulegt að Burnley muni selja Newcastle annan lykilmann en bæði lið eru í bullandi fallbaráttu þegar tímabilið á Englandi er rúmlega hálfnað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.