Ghebreyesus sagðist þó vongóður um að góður árangur gegn faraldrinum myndi nást á þessu ári.
Samkvæmt gagnagrunni WHO fjölgaði smituðum um ellefu prósent á einnig viku og voru tæplega fimm milljónir nýrra smita tilkynnt 20. til 26. desember. Á þessu tímabil greindust um 900 þúsund manns smitaðir á degi hverjum.
AP fréttaveitan hefur eftir Ghebreyesus að hann hafi miklar áhyggjur af því að áðurnefnd flóðbylgja muni skella harkalega á heilbrigðisstarfsmönnum um heim allan, sem séu verulega þreyttir og undir miklu álagi fyrir.
Vísbendingar eru um að ómíkron-afbrigðið valdi minni einkennum en delta-afbrigðið. Það virðist þó á móti dreifast mun auðveldar manna á milli og á auðveldara með að fara í gegnum þær varnir sem bóluefni veita. Bóluefni virðast þó áfram verja fólk gegn alvarlegum veikindum.
Met var sett í Frakklandi í dag þar sem um 208 þúsund manns greindust smituð á undanförnum sólarhring. Það er einnig Evrópumet.
Samkvæmt Reuters eru svipaðar fregnir að berast víðsvegar að úr heimum. Fréttaveitan segir met hafa verið slegin í fjölmörgum ríkjum á undanförnum dögum og þar á meðal Bretlandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu, og Grikklandi.