Innlent

Þríbólusettur og í 23 daga sóttkví gefst ekki upp fyrir dómstólum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin er frá bólusetningum í Laugardalshöll en tengist fréttinni að öðru leyti ekki.
Myndin er frá bólusetningum í Laugardalshöll en tengist fréttinni að öðru leyti ekki. Vísir/vilhelm

Þríbólusettur einstaklingur sem þarf samkvæmt úrskurði héraðsdóms að sæta sóttkví í 23 daga hefur kært niðurstöðuna til Landsréttar. Viðkomandi segist hafa verið útsettur fyrir smiti á heimili sínu frá 10. desember án þess að smitast. Það staðfesti fjölmörg PCR-próf sem hann hafi farið í.

Fréttablaðið greindi í gær frá því að Héraðsdómur Reykjaness hefði staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis að einstaklingurinn þyrfti að sæta fyrrnefndri sóttkví. Var ákvörðunin á grundvelli þess að einstaklingurinn hafði verið í nálægð við fólk smitað af Covid-19 á tveimur mismunandi tímum.

Í tilkynningu Gunnars Inga Jóhannssonar lögmanns segir:

„Umbjóðandi minn er þríbólusettur, hefur margsinnis gengið undir pcr-próf sem öll reyndust neikvæð, og verið samfellt útsettur fyrir smiti á heimili sínu frá 10. desember sl. án þess að smitast. Umbjóðandi minn telur þann tíma sem hann hefur verið skikkaður til að vera í sóttkví, þ.e. 23 dagar, óhóflegan auk þess sem hann telur margvíslega meinbugi á málsmeðferð sóttvarnarlæknis.“

Málið verði að öðru leyti ekki rekið í fjölmiðlum hér eftir.

Óvíst er hvenær Landsréttur kveður upp úrskurð sinn í málinu. Svo gæti farið að viðkomandi væri laus úr sóttkví áður en úrskurður fellur. Þar með væri uppi skortur á lögvörðum hagsmunum einstaklingsins enda ekki lengur í sóttkví.

Fleiri mál hafa verið rekin fyrir dómstólum gegn sóttvarnalækni. Þannig staðfesti héraðsdómur í gærkvöldi ákvörðun sóttvarnalæknis um tíu daga einangrun í tilfelli fimm einstaklinga sem greindust með Covid-19. Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og lögmaður, rekur málin og segir til skoðunar að fara með þau fyrir Landsrétt.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×