Enski boltinn

Segir að Spurs hafi aldrei haft jafn góðan stjóra og Conte

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte hefur farið vel af stað í starfi knattspyrnustjóra Tottenham.
Antonio Conte hefur farið vel af stað í starfi knattspyrnustjóra Tottenham. getty/Sebastian Frej

Jamie Carragher er afar hrifinn af því sem Antonio Conte hefur gert hjá Tottenham síðan hann tók við liðinu og segir góðar líkur á að það nái Meistaradeildarsæti.

Conte var ráðinn knattspyrnustjóri Tottenham í síðasta mánuði eftir að Nuno Espirito Santo var rekinn. Spurs hefur unnið sjö af fyrstu ellefu leikjum sínum undir stjórn Contes og er ósigrað í ensku úrvalsdeildinni síðan hann tók við.

„Það hefur orðið umbreyting á liðinu. Þeir spiluðu undir getu hjá Nuno, engin spurning. En við getum borið þetta saman og þeir hafa bætt sig mikið,“ sagði Carragher í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

Að mati Carraghers er Conte í hópi allra bestu stjóra ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ástæðan fyrir því að ég held að Spurs eigi mjög góða möguleika á að vera í efstu fjórum sætunum er þeir eru með mjög góða stjóra sem gefur Jürgen Klopp, Pep Guardiola og Thomas Tuchel ekkert eftir,“ sagði Carragher og bætti við að það þyrfti að fara ansi langt aftur í tímann til að finna tíma þegar Tottenham var með jafn góðan stjóra og núna.

„Þú þarft sennilega að fara aftur til frægasta stjóra í sögu félagsins, Bill Nicholson, sem gerði Spurs að tvöföldum meisturum 1961. Þeir hafa aldrei haft stjóra í þessum gæðaflokki. Fólk gæti nefnt José Mourinho en það var ekki Mourinho á toppnum. Núna eru þeir með stjóra á toppnum og það gefur þeim góða möguleika.“

Spurs er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum á eftir Arsenal sem er í 4. sætinu en á þrjá leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×