Enski boltinn

Segir það fáránlegt að Liverpool þurfi að spila tvo leiki á fjórum dögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pepijn Lijnders, á miðri mynd, og Klopp til hægri.
Pepijn Lijnders, á miðri mynd, og Klopp til hægri. vísir/getty

Pep Lijnders, aðstoðarmaður Jürgen Klopp, segir það algjörlega fáránlegt að Liverpool þurfi að spila tvo leiki á fjórum dögum þegar horft er á fjölda kórónuveirusmita og meiðsla innan félagsins.

Liverpool lék gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn og liðið mætir Leicester í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins í kvöld.

„Við elskum magnið af leikjum á þessum tíma, en við verðum að bera virðingu fyrir endurheimtinni,“ sagði Lijnders á mánudaginn.

„Okkur finnst það algjörlega fáránlegt að við séum að fara að spila leik eftir 48 tíma. Það er miklu meiri hætta á meiðslum.“

Félög ensku úrvalsdeildarinnar funduðu á mánudaginn og þá var það samþykkt að ekki yrði frestað leikjunum á milli jóla og nýárs.

„Þið verðið að spyrja félögin af hverju þau vilja spila. Þar sem að kórónuveirusmitin eru tiltölulega nýleg þætti mér eðlilegt að fá meiri tíma á milli leikja.“

Lijnders bætti einnig við að honum þætti að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar ættu að hlusta á vísindamenn, frekar en stjórnarmenn félaganna, þegar kemur að ákvarðanatöku sem snýr að kórónuveirufaraldrinum.

„Fyrir mér eru sérfræðingarnir ekki þjálfarar deildarinnar, heldur vísindamennirnir og læknarnir. Við ættum að hlusta á þeirra ráðleggingar.“

„Enska úrvalsdeildin ætti að spyrja þá. Ekki stjórnarformennina og ekki þjálfarana, af því að heilsan á alltaf að vera í fyrsta sæti,“ sagði Lijnders að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×