Enski boltinn

Klopp ekki með það á hreinu hvenær hann missir Salah, Mane og Keita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp ræðir við þá Sadio Mane og Mohamed Salah fyrir leik á Anfield.
Jürgen Klopp ræðir við þá Sadio Mane og Mohamed Salah fyrir leik á Anfield. Getty/Peter Powell

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er í þeirri stöðu að hann missir þrjá öfluga leikmenn liðsins í næsta mánuði.

Þeir Mohamed Salah, Sadio Mane og Naby Keita munu þá allir yfirgefa Liverpool og fara til móts við landsliðin sín sem eru að fara að keppa í Afríkukeppninni í Kamerún.

Salah spilar með Egyptalandi, Mane með Senegal og Keita með Gíneu.

Margir eru að velta því fyrir sér hversu lengi þeir verða í burtu og hversu mörgum leikjum þeir muni missa af. Klopp var spurður út í þetta á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool á móti Newcastle annað kvöld.

Einhverjir hafa líka verið að velta því fyrir sér hvort að það þyrfti að fresta Afríkukeppninni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en afríska knattspyrnusambandið segir ekkert il í slíkum vangaveltum. Klopp var spurður hvort hann teldi rétt að fresta mótinu.

„Ég hef ekkert um það að segja. Þeir sem ráða þessu taka þessar ákvarðanir. Ég hef enga hugmynd um hversu slæmt ástandið er út í heimi. Svoleiðis er það bara,“ sagði Jürgen Klopp.

ESPN hefur þær heimildir að þeir Salah, Mane og Keita verði að vera komnir til landsliða sinna 27. desember næstkomandi en félög eins og Liverpool hafa verið í viðræðum um að fá að halda leikmönnum lengur.

Liverpool er að gera allt sem félagið getur til að fá að nota þá í leik á móti Chelsea á Stamford Bridge 2. janúar. En hvenær missri Klopp þá Salah, Mane og Keita?

„Ég veit það ekki,“ sagði Klopp en bætti við: „Við vitum það ekki nákvæmlega. Það mun kom sá tími að landsliðsþjálfararnir gefa upp sín plön og við munum reyna að vera í viðræðum við þá um þetta. Þetta er samt ákvörðun sem er tekin annars staðar og við verðum að bíða eftir þeirri niðurstöðu,“ sagði Klopp.

Hann staðfesti hins vegar það að Joel Matip muni ekki taka landsliðsskóna sína af hillunni og spila með Kamerún þótt að einhverjar sögusagnir séu um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×