Enski boltinn

Brands farinn: Ó­víst hvað verður um Grétar Rafn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson. Sky Sports

Hollendingurinn Marcel Brands hefur sagt starfi sínu lausu sem yfirmaður knattspyrnumála hjá enska knattspyrnuliðinu Everton. Óvissa ríkir um framtíð Grétars Rafns Steinssonar hjá félaginu en hann er sem stendur yfir leikmannakaupum og þróun leikmanna félagsins.

Vísir greindi frá fyrr í dag að Marcel Brands hefði ákveðið að segja upp þar sem hann væri ekki sammála stefnu Everton. Þetta kom nokkuð á óvart þar sem hann skrifaði undir þriggja ára framlengingu á samningi sínum fyrr á þessu ári.

Staðarblaðið Liverpool Echo greinir einnig frá brotthvarfi Brands og veltir fyrir sér hvað verður um hinn 39 ára gamla Grétar Rafn Steinsson. Íslendingurinn er titlaður sem „Head of Recruitment and Development,“ sem þýðir að hann stýrir kaupum félagsins sem og þróun leikmanna.

Brands réð Grétar til Everton fyrir þremur árum sem yfirnjósnara innan Evrópu. Síðan hefur Grétar Rafn fengið enn stærra hlutverk hjá félaginu.

Hvort Grétar Rafn haldi stöðu sinni, taki við af Brands eða fylgi honum út um dyrnar á svo eftir að koma í ljós.

Everton mætir Arsenal í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðið er sem stendur í 16. sæti með aðeins 15 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×