Enski boltinn

Maðurinn sem fékk til að mynda Ancelotti og James Rodrígu­ez til E­ver­ton farinn frá fé­laginu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcel Brands og James Rodríguez. Þeir hafa nú báðir yfirgefið Everton.
Marcel Brands og James Rodríguez. Þeir hafa nú báðir yfirgefið Everton. Tony McArdle/Getty Images

Hollendingurinn Marcel Brands hefur yfirgefið enska knattspyrnufélagið Everton þrátt fyrir að skrifa undir nýjan þriggja ára samning í apríl á þessu ári. Hann sinnti stöðu yfirmanns knattspyrnumála frá árinu 2018 þangað til nú.

Brands tók við af Steve Walsh í júní 2018 og skrifaði undir þriggja ára framlengingu á samningi sínum fyrr á þessu ári. Brands starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála hjá PSV í heimalandi sínu áður en hann kom til Everton. Þar áður var hann hjá AZ Alkmaar og RKC Waalwijk.

Brands var maðurinn á bakvið ráðningu Carlo Ancelotti á Goodison Park en Ítalinn stýrði Everton frá 2019 til 2021. Þá var Brands að störfum er Everton festi kaup á leikmönnum á borð við Lucas Digne, André Gomes, Kurt Zouma (á láni), Moise Kean, Allan, Adboulaye Doucouré, James Rodríguez og Ben Godfrey.

Fyrir þetta tímabil var ljóst að Rafa Benitez, arftaki Ancelotti, hafði ekki mikið á milli handanna og liðið þyrfti að fá leikmenn inn á láni eða einkar ódýrt. Gengi liðsins hefur ekki verið upp á marga fiska og virðist sem brestir hafi orðið í sambandi Brands við stjórn félagsins.

Hann ákvað að segja starfi sínu lausu þar sem honum og stjórn Everton „kom ekki saman um framtíðarsýn eða stefnu félagsins.“

Everton þakkar honum fyrir störf sín í tilkynningu og tekur sérstaklega fram í kjölfarið að stjórn félagsins styðji þétt við bakið á þjálfara liðsins.

Everton mætir Arsenal í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liðið er sem stendur í 16. sæti með aðeins 15 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×