Erlent

Pfizer segir að fólk þurfi lík­lega ár­lega bólu­setningu

Eiður Þór Árnason skrifar
Albert Bourla, forstjóri Pfizer.
Albert Bourla, forstjóri Pfizer. Getty/Steven Ferdman

Dr. Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, segir líklegt að fólk komi til með að þurfa árlega bólusetningu gegn Covid-19 á næstu árum til að viðhalda góðri vörn gegn kórónuveirunni.

Fyrirtækið þróar nú nýja gerð af bóluefni sínu til að bregðast við hinu stökkbreytta omíkron-afbrigði. Vonast er til að nýja bóluefnið verði tilbúið á næstu hundrað dögum.

Pfizer stefnir á að verða búið að afhenda þrjá milljarða skammta af bóluefni sínu fyrir lok þessa árs og áætlar að framleiða fjóra milljarða til viðbótar á næsta ári. 

Hlutabréfaverð Pfizer tekið hástökk

Útlit er fyrir að tekjur Pfizer af Comirnaty-bóluefninu nemi minnst 35 milljörðum Bandaríkjadala árið 2021. Samhliða því hefur hlutabréfaverð Pfizer hækkað verulega á þessu ári.

Hin ýmsu almannaheillafélög hafa gagnrýnt alþjóðleg lyfjafyrirtæki fyrir að hagnast á heimsfaraldrinum. Bourla segir aðalatriðið að bóluefnin hafi bjargað milljónum mannslífa og lyfjafyrirtækin hafi sparað heimshagkerfinu þúsundir milljarða Bandaríkjadala.

Bourla hafnar því alfarið í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að Pfizer hafi okrað á heimsbyggðinni og segir að bóluefnið sé selt á verði stakrar máltíðar til ríkari landa. Þá sé skammturinn seldur án ágóða til láglaunalanda.

Sækjast eftir leyfi fyrir notkun bóluefnisins hjá undir fimm ára 

Bóluefni Pfizer þarf að geyma við 70 gráður fyrir neðan frostmark og hefur það hamlað dreifingu þess í löndum með skerta heilbrigðisþjónustu. 

Pfizer stefnir að því að gefa út nýja gerð á næstu vikum sem hægt verður að geyma í þrjá mánuði í ísskáp. Bourla telur að varan eigi eftir að breyta miklu fyrir Afríkulönd sunnan Sahara

Pfizer stendur nú fyrir rannsókn á virkni og öryggi bóluefnisins hjá börnum undir fimm ára aldri en bandarísk heilbrigðisyfirvöld leyfðu notkun þess hjá fimm til ellefu ára börnum í október.


Tengdar fréttir

Pfizer segir nýtt veirulyf veita mikla vörn gegn veikindum og dauða

Forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins Pfizer segja starfsmenn þess hafa þróað nýtt veirulyf sem dragi verulega úr alvarlegum veikindum og dauðsföllum vegna Covid-19. Pfizer segir rannsóknir starfsmanna fyrirtækisins sýna að lyfið hafi 89 prósenta virkni.

For­stjóri Pfizer segir lík­legt að fólk muni þurfa þriðja skammtinn

Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, segir líklegt að fólk muni þurfa viðbótarskammt (e. booster) af bóluefni við Covid-19 innan við ári eftir að það lýkur bólusetningu. Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að fólk þurfi að fara í árlega bólusetningu gegn kórónuveirunni til að viðhalda vernd.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.