Erlent

For­stjóri Pfizer segir lík­legt að fólk muni þurfa þriðja skammtinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Albert Bourla, forstjóri Pfizer, segir óvíst hversu lengi bóluefni veita vernd gegn kórónuveriunni.
Albert Bourla, forstjóri Pfizer, segir óvíst hversu lengi bóluefni veita vernd gegn kórónuveriunni. EPA/GIAN EHRENZELLER

Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, segir líklegt að fólk muni þurfa viðbótarskammt (e. booster) af bóluefni við Covid-19 innan við ári eftir að það lýkur bólusetningu. Þá sé sá möguleiki fyrir hendi að fólk þurfi að fara í árlega bólusetningu gegn kórónuveirunni til að viðhalda vernd.

Áður hafði Alex Gorsky, forstjóri Johnson & Johnson sem framleiðir bóluefni undir merkjum Janssen, sagt í febrúar að fólk þyrfti mögulega að vera bólusett árlega líkt og með bólusetningar gegn inflúensu til að bregðast við nýjum afbrigðum.

Ekki er vitað hversu lengi núverandi bóluefni veita vernd gegn Covid-19 en Pfizer greindi frá því fyrr í þessum mánuði að niðurstöður úr klínískri rannsókn þeirra bendi til að Pfizer/BioNTech bóluefnið veiti 91% vörn gegn Covid-19 og 95% vörn gegn alvarlegum veikindum allt að hálfu ári eftir að fólk fær seinni skammtinn.

Fyrr í dag sagði David Kessler, æðsti vísindamaður í Covid-19 aðgerðateymi Biden-stjórnarinnar, að Bandaríkjamenn ættu að reikna með því að fá viðbótarskammt til að vernda það gegn ólíkum afbrigðum kórónuveirunnar.

Í febrúar tilkynntu Pfizer og BioNTech að fyrirtækin hafi byrjað prófanir á viðbótarskammti til að átta sig betur á ónæmissvarinu sem myndast gegn nýjum afbrigðum veirunnar.

Þá sagði Stephane Bancel, forstjóri Moderna, í samtali við CNBC í gær að fyrirtækið vonaðist til að vera búið að þróa viðbótarskammt af bóluefni þeirra í haust.


Tengdar fréttir

Þurfum að vera búin undir veirustofna sem sleppa undan bóluefni

Sóttvarnalæknir segir að fólk þurfi að búa sig undir það að stofnar kórónuveirunnar komi fram, sem bóluefni bíti ekki á. Ekki sé heldur ljóst hversu lengi ónæmi af þeim bóluefnum sem leyfi hafa fengist fyrir vari lengi og ekki útilokað að bólusettir þurfi aftur í bólusetningu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.