Enski boltinn

Benítez hangir á bláþræði fyrir enn einn Liverpool-slag sinn

Sindri Sverrisson skrifar
Rafael Benítez er með Everton í brattri brekku.
Rafael Benítez er með Everton í brattri brekku. Getty/Robbie Jay Barratt

Rafael Benítez er sá knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni sem veðbankar telja líklegastan til að missa starfið sitt. Liverpoolslagurinn í kvöld er því sennilega sá mikilvægasti af mörgum sem Spánverjinn hefur tekið þátt í.

Þegar Benítez stýrði Liverpool á sínum tíma tók hann 14 sinnum þátt í Merseyside-slag, eins og leikir Liverpool og Everton eru kallaðir í Bretlandi. Það hefur ekki gerst síðan árið 1894, fyrir meira en öld síðan, að knattspyrnustjóri upplifi það að hafa stýrt báðum þessum liðum í uppgjöri grannanna.

Það er hins vegar lítil ástæða til bjartsýni fyrir Benítez og hans menn í kvöld. Everton hefur ekki unnið leik síðan í september og aðeins fengið eitt stig úr síðustu sex leikjum sínum.

Eftir 1-0 tapið gegn Brentford um helgina hefur Everton auk þess leikið þrjá leiki í röð án þess að skora eitt einasta mark.

Everton er komið niður í 14. sæti, með aðeins 15 stig eftir 13 leiki, víðs fjarri Liverpool sem hefur aðeins tapað einum deildarleik síðan í mars.

Án Gylfa, Calvert-Lewin og Richarlison

Það hefur sem sagt nánast allt gengið á afturfótunum hjá Benítez, sem tók við Everton í sumar. Liðið hóf reyndar leiktíðina frábærlega og náði í 10 af fyrstu 12 mögulegum stigum en svo hrökk allt í baklás.

Auðvitað hjálpar ekki til að Everton missti Gylfa Þór Sigurðsson óvænt út fyrir tímabilið vegna lögreglumáls sem enn er til rannsóknar.

Þá hafa lykilmenn á borð við Yerry Mina, Abdoulaye Doucoure, Dominic Calvert-Lewin og Richarlison glímt við meiðsli.

Pressan er engu að síður mikil á Benítez en hann gæti minnkað hana með góðum úrslitum gegn sínu gamla liði í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×