Enski boltinn

De Bruyne kom til baka með kórónuveiruna og missir af leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne missir af næstu leikjum með Manchester City.
Kevin De Bruyne missir af næstu leikjum með Manchester City. EPA-EFE/David Ramos

Kevin De Bruyne missir af næstum þremur leikjum Englandsmeistara Manchester City eftir að hafa náð sér í kórónuveiruna í landsliðsglugganum.

De Bruyne fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi þegar hann snéri til baka eftir landsleikina með Belgum í undankeppni HM.Belgar unnu sinn riðil og eru öruggir með sæti á heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári.

De Bruyne spilaði í 1-1 jafntefli Belga við Wales á þriðjudaginn var en prófið var tekið daginn eftir.

Hann þarf nú að vera í einangrun í tíu daga.

De Bruyne missir af deildarleik á móti Everton um helgina en hann missir líka Meistaradeildarleik á móti Paris Saint Germain á miðvikudag sem og deildarleik á móti West Ham um næstu helgi.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti fréttirnar á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Everton.De Bruyne var bólusettur og vonandi sleppur hann því við erfið veikindi. Það besta í stöðunni væri að hann nái sér í smá frí eftir mikið álag með City og belgíska landsliðinu í haust.

De Bruyne hefur ekki ná sér alveg nógu vel á strik í haust og hefur enn ekki gefið stoðsendingu í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.