Erlent

Vilja að stjórnvöld í Ástralíu horfi á framboðið og stefni á smásölubann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
HIngað til hafa stjórnvöld einblínt á eftirspurnina, segja sérfræðingarnir.
HIngað til hafa stjórnvöld einblínt á eftirspurnina, segja sérfræðingarnir.

Sérfræðingar í heilbrigðismálum hafa ráðlagt stjórnvöldum í Ástralíu að hætta að einblína eingöngu á eftirspurnina eftir sígarettum og einbeita sér í auknum mæli að framboðinu.

Þannig leggja þeir til að yfirvöld gefi út að ákveðinn dag í framtíðinni verði sala sígaretta bönnuð í matvöruverslunum og hjá öðrum smásöluaðilum.

Samkvæmt niðurstöðum sem voru birtar í Medical Journal of Australia í dag eru 52,8 prósent landsmanna fylgjandi því að sala á sígarettum í smásölu verði smám saman bönnuð.

Coral Gartner, sérfræðingur í löggjöf og reglugerðum um tóbak við University of Queensland, segir niðurstöður könnunarinnar til marks um að almenningur sé stundum á undan löggjafanum.

Þá segir hún í annarri grein sem hún og kollegar hennar fengu birta í MJA að tími sé kominn til að binda enda á þá verndastefnu sem hefur verið viðhöfð hvað varðar tóbak.

„Sígarettur mæta ekki nútímaöryggisstöðlum um neytendavörur,“ segir í greininni. „Það er eðlilegt að stjórnvöld taki óöruggar vörur á borð við menguð matvæli, asbest og blýmálningu af markaðnum,“ segir einnig. Tóbak tilheyri þessum flokki og að lög og reglur um umbúðir tókbaksvara hafi sýnt og sannað að yfirvöld hafi heimild til að grípa til aðgerða til að tryggja heilsu íbúa, jafnvel þótt aðgerðirnar komi niður á einkaaðilum og alþjóðlegum viðskiptum.

Holland er meðal þeirra ríkja sem hefur farið þá leið að takmarka framboðið á sígarettum en þar verður ólöglegt að selja sígarettur í matvöruverslunum frá 2024. Þá hafa yfirvöld á Nýja-Sjálandi verið að skoða aðgerðir til að draga úr smásölu og jafnvel banna nikótín í sígarettum.

Sala á sígarettum hefur verið bönnuð í Beverly Hills og Manhattan Beach í Kaliforníu í Bandaríkjunum frá 1. janúar síðastliðnum.

Gartner segir að samtal þurfi að eiga sér stað áður en gripið verður til aðgerða. Þannig megi þær til dæmis ekki fela í sér að reykingar eða sígarettur verði gerðar ólöglegar.

Guardian greindi frá.


Tengdar fréttir

Raf­rettu­fram­leiðandi borgar sig frá mál­sókn

Bandaríski rafrettuframleiðandinn Juul hefur fallist á að greiða 40 milljónir dollara í dómsátt vegna málsóknar yfirvalda í Norður-Karólínu sem saka fyrirtækið um að stuðla að nikótínfíkn ungmenna. Fleiri slík mál eru í farvatninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×