Veður

Gular viðvaranir sunnanlands á morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Búast má við samgöngutruflunum á fjallvegum og í efri byggðum sunnanlands. 
Búast má við samgöngutruflunum á fjallvegum og í efri byggðum sunnanlands.  Vísir/Vilhelm

Gular viðvaranir taka gildi í nótt víða á sunnanverðu landinu. Víðast er spáð snjókomu eða slyddu og norðaustanhvassviðri eða stormi. 

Viðvaranirnar taka gildi á milli klukkan tvö og átta í nótt og eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Suðausturlandi og miðhálendinu. Viðvaranirnar gilda víðast fram að hádegi nema á hálendinu en þar gildir viðvörun þar til á miðnætti annað kvöld. 

Á höfuðborgarsvæðinu má búast við snjókomu eða slyddu en síðar rigningu, einkum í efri byggðum þar sem færð gæti orðið erfið. Búast má við snjókomu eða slyddu, einkum á Hellisheiði og Mosfellsheiði og jafnvel í uppsveitum. Líkur eru á samgöngutruflunum á Suðurlandi. 

Gular viðvaranir taka gildi sunnanlands í nótt. Búast má við slyddu eða snjókomu víðast.Veðurstofa Íslands

Við Faxaflóa má einnig búast við talsverðri slyddu og jafnvel snjókomu og svo rigningu þegar líða fer á morgundaginn. Gæti það valdið því að samgöngutruflanir verði á Reykjanesbraut og víðar á Suðurnesjum. 

Á Suðausturlandi má búst við norðaustan hvassviðri eða stormi en hvassast verður í Öræfum og Mýrdal. Vindhviður þar gætu náð allt að 35 til 40 m/s. Varað er við því að fólk sé á ferðinni í ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindum. 

Á miðhálendinu má búast við norðaustan 15 til 23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Færð og skyggni verður lélegt. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×