Veður

Sólríkara og úrkomuminna í Reykjavík en á Akureyri

Eiður Þór Árnason skrifar
Margir Norðlendingar söknuðu sólarinnar í október.
Margir Norðlendingar söknuðu sólarinnar í október. Vísir/Vilhelm

Október einkenndist af norðaustlægum áttum og var úrkomusamur á Norðaustur- og Austurlandi. Samanborið við sama mánuð undanfarin tíu ár var mánuðurinn tiltölulega kaldur á norðanverðu landinu en tiltölulega hlýr á því sunnanverðu.

Sólskinsstundir voru færri en í meðalári á Akureyri og þar var mánaðarúrkoman sú næstmesta sem mælst hefur þar. Talsvert sólríkara og úrkomuminna var í Reykjavík.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands yfir tíðarfar í október. Óvenjumikil úrkoma í upphafi mánaðar á Norðausturlandi olli miklum skriðuföllum í Kinn og Útkinn.

Meðalhiti í Reykjavík í október var 5,6 stig og er það 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga og 1,2 stigum undir meðallagi síðastliðinna 10 ára.

Meðalhiti mánaðarins var 4,3 stig í Stykkishólmi. Það er 0,2 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 0,7 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,7 stig, eða um 0,1 stigi yfir meðallagi síðasta áratugar.

Hæsti hitinn í október mældist 15,3 stig á Kvískerjum 13. dag mánaðarins. Lægsti hiti mánaðarins mældist -12,3 stig þann 28. október í Svartárkoti, sem var jafnframt lægsti mældi hiti í byggð.

Úrkoma aðeins einu sinni mælst meiri á Akureyri í október

Heildarúrkoma mánaðarins var 55,1 mm í Reykjavík, eða 69% af meðalúrkomu októbermánaðar í Reykjavík á tímabilinu 1991 til 2020. Á Akureyri var heildarúrkoma októbermánaðar 164,8 mm en það er meira en tvöföld úrkoma meðaloktóbermánaðar árin 1991 til 2020. 

Úrkoma í október hefur aðeins einu sinni mælst meiri á Akureyri, en það var árið 1995 þegar hún mældist 176,3 mm. Úrkoman mældist 84,0 mm í Stykkishólmi sem er 23% yfir meðallagi og 205,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Fram kemur í yfirliti Veðurstofunnar fyrir október að sólskinsstundir mældust 102,3 í Reykjavík og er það 10,7 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 32,9 sem er 15,0 stundum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga.

Jörð var alhvít einn morgun mánaðarins í Reykjavík og alauð aðra daga. Alautt var á Akureyri allan mánuðinn nema einn dag þegar það var flekkótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×