Enski boltinn

Klopp hataði að þurfa að taka Mane af velli í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp ræðir við Sadio Mane í fyrri hálfleiknum á móti Atletico Madrid í Meistaradeildinni í gær.
Jürgen Klopp ræðir við Sadio Mane í fyrri hálfleiknum á móti Atletico Madrid í Meistaradeildinni í gær. AP/Jon Super

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, þurfti að taka mjög skynsamlega en um leið ósanngjarna ákvörðun í Meistaradeildarsigrinum á móti Atletico Madrid í gær.

Klopp tók þá Sadio Mane af velli í hálfleik en senegalski framherjinn hafði skorað í fyrri hálfleiknum og átti alls ekki skilið að fara af velli svona snemma.

Ástæða skiptingarnar var sú að Mane var kominn með gult spjald og leikmenn Atletico voru löngu farnir á fullt að reyna að veiða hann af velli.

„Ég taldi að þetta væri það rétta í stöðunni en ég hataði það meira en þú getur ímyndað þér,“ sagði Jürgen Klopp eftir leikinn.

„Ég hafði áhyggjur af því að Sadio myndi ekki ráða við tilfinningarnar. Hann var rólegur en svo kemur staðan að boltinn fer upp í loft, hann fer í skallaeinvígið og leikmaður Atletico hrynur niður í jörðina,“ sagði Klopp.

„Við sáum öll hvað leikmenn Madridarliðsins gerðu. Þeiru voru rúllandi um völlinn til að ná að jafna aftur í liðunum. Ég var ekki hrifinn af þessu en þetta var það rétta í stöðunni,“ sagði Klopp.

Hollenski dómarinn Danny Makkelie lyfti alls sjö gulum spjöldum og einu rauðu í þessum leik. Mane var einn af þremur Liverpool mönnum sem fengu spjald en hinir tveir, Diogo Jota og Joel Matip, fengu spjaldið sitt undir lok leiksins.

Sadio Mane skoraði sitt annað mark í Meistaradeildinni í þessum leik en hann skoraði líka á móti Porto. Liverpool hefur unnið alla fjóra leiki sína í Meistaradeildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×