Enski boltinn

Segist ekki hafa hunsað Solskjær: „Stórar lygar til að búa til fyrirsagnir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær og Paul Pogba á góðri stund.
Ole Gunnar Solskjær og Paul Pogba á góðri stund. getty/Simon Stacpoole

Paul Pogba, leikmaður Manchester United, segir ekkert til í því að hann hafi hunsað knattspyrnustjórann Ole Gunnar Solskjær eftir tapið fyrir Liverpool.

Pogba kom inn á sem varamaður í hálfleik gegn Liverpool þegar staðan var 0-4, Rauða hernum í vil. Frakkinn átti enga draumainnkomu. Hann missti boltann í aðdraganda fimmta marks Liverpool á 50. mínútu og tíu mínútum síðar var hann rekinn af velli fyrir ljótt brot á Naby Keïta.

The Sun birti frétt um að Pogba hafi beðið samherja sína afsökunar á rauða spjaldinu sem hann fékk. Hann hafi aftur á móti ekkert sagt við Solskjær og hafi sett viðræður við United um nýjan samning á ís.

Pogba segir þetta af og frá. „Stórar lygar til að búa til fyrirsagnir,“ skrifaði Frakkinn á Twitter með mynd af frétt The Sun. Á henni stendur „falsfréttir“.

Samningur Pogbas við United rennur út næsta sumar og hann hefur þrálátlega verið orðaður við brottför frá félaginu.

Ekki eru allir sáttir með Pogba og hvernig hann hefur spilað og komið fyrir. Nafni hans, Paul Scholes, er þar á meðal en eftir leikinn gegn Liverpool sagði hann að hann myndi ekki sjá á eftir Frakkanum ef hann myndi ekki spila fleiri leiki með United.

Pogba byrjaði tímabilið af miklum krafti og lagði upp fimm mörk í fyrstu tveimur leikjum United í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur hins vegar ekki náð að fylgja því eftir og byrjað á varamannabekknum í síðustu tveimur leikjum United.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.