Enski boltinn

Segir að Pogba eigi aldrei aftur að spila fyrir United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba gengur af velli eftir að Anthony Taylor gaf honum rauða spjaldið gegn Liverpool.
Paul Pogba gengur af velli eftir að Anthony Taylor gaf honum rauða spjaldið gegn Liverpool. getty/John Powell

Paul Scholes segir að Paul Pogba eigi aldrei aftur að spila fyrir Manchester United eftir hræðilega innkomu hans í 0-5 tapinu fyrir Liverpool í gær.

Pogba byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður í hálfleik. Þá var staðan 0-4, Liverpool í vil. Pogba hjálpaði lítið til. Hann missti boltann í aðdraganda fimmta marks Liverpool og fékk svo rautt spjald fyrir brot á Naby Keïta. Scholes var ekki hrifinn af innkomu nafna síns, svo vægt sé til orða tekið.

„Hann stóð á boltanum á miðjunni og reyndi að sýna hversu sterkur hann er og gaf mark. Svo fékk hann rautt spjald fyrir fáránlega tæklingu. Þá varstu 0-5 undir og manni færri. Þú verður að spyrja þig ef Ole [Gunnar Solskjær] verður áfram við stjórnvölinn fáum við að sjá Pogba aftur í búningi United?“ sagði Scholes.

„Hann hefur búið til endalaust vesen síðustu árin. Allir vita hversu góður hann er, allir stjórar treysta honum og reyna að leyfa honum að vera leikmaðurinn sem hann er. En þrátt fyrir það og með því að skrifa ekki undir nýjan samning heldur hann félaginu í gíslingu. Og svo gerir hann þetta.“

Scholes segir að hann muni ekki sakna Pogbas ef hann spilar ekki aftur fyrir United.

„Hann mun sennilega spila aftur en þeir missa ekki neitt ef hann gerir það ekki. Hann hefur fengið fjölda tækifæra, heldur áfram að segja að hann vanti stöðugleika en það sem hann gerði í dag [í gær] er bara vanvirðing við stjórann og samherjana,“ sagði Scholes.

United hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er í 7. sæti hennar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.