Veður

Lægðir sem hring­snúast um landið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Búast má við rigningu víða um land í dag.
Búast má við rigningu víða um land í dag. Vísir/Vilhelm

Búast má við að norðaustlæg átt verði ríkjandi á landinu í dag og víða dálítil rigning. Í kvöld hvessir talsvert á Vestfjörðum og reikna má með slyddu til fjalla þar um slóðir.

Þetta kemur fram í hugleiðingum Veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að þrjár lægðir hringsnúist nú um landið, en haldi sig þó fjarri og ættu því ekki að hafa bein áhrif á veðrið.

Í nótt má gera ráð fyrir að dragi úr vindi og að á morgun verði áttin orðin norðlæg. Strekkingur á Vestfjörðum, en hægari annars staðar. Dálítil él á norðanverðu landinu en lítilsháttar væta sunnar og lægri hitatölur.

Á þriðjudag er von á lægð frá Nýfundnalandi upp að landinu, með þeim afleiðingum að gengur í allhvassa eða hvassa austanátt með rigningu, talsverðri úrkomu á Austurlandi og hlýrra veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðlæg átt, 8-15 m/s NV-lands, en annars hæg breytileg átt. Dálítil él fyrir norðan, en annars lítilsháttar væta hér og þar. Hiti 0 til 6 stig, mildast syðst.

Á þriðjudag:

Gengur í austan 10-18 m/s og fer að rigna, talsverð rigning A-lands síðdegis. Lægir og dregur úr vætu á S-verðu landinu um kvöldið. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst.

Á miðvikudag:

Ákveðin norðaustanátt og rigning eða slydda með köflum, en hægara og úrkomulítið SV-til. Hiti 0 til 5 stig.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Útlit fyrir norðaustanáttir með skúrum eða éljum, en lengst af þurrt SV-til. Svalt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×