Enski boltinn

Steve Bruce fær að stýra liði Newcastle á móti Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Bruce á æfingu Newcastle United í vikunni.
Steve Bruce á æfingu Newcastle United í vikunni. Getty/Serena Taylor

Tími nýrra eiganda enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle United hefst undir stjórn knattspyrnustjórans Steve Bruce eftir allt saman.

Almennt var búist við því að Steve Bruce yrði rekinn fyrir helgi og jafnvel að aðstoðarmenn hans fengju það verkefni að stýra liðinu á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Í dag kom það hins vegar í ljós að Steve Bruce stýrir liðinu í leiknum og það verður um leið hans þúsundasti leikur sem knattspyrnustjóri.

Amanda Staveley er einn af nýju eigendum félagsins og hún segir að ætlunin sé að sýna þolinmæði í nálgun þeirra að þessu verkefni og að ekki sé ætlunin að breyta öllu yfir nótt.

Staveley segir Bruce verði sá fyrsti til að frétta af því ef að það verða einhverjar breytingar á hans stöðu innan félagsins.

Sádí-Arabarnir tóku yfir Newcastle í landsleikjaglugganum og enduðu þar með fjórtán ára eigandatíð Mike Ashley. Það er búist við miklum peningum inn í félagið og að nýir eigendur taki allt í gegn, æfingaaðstöðuna, St. James leikvanginn og svo bæði leikmanna og stjóramál.

Pressa hafði aukist á hinum sextuga Bruce og stærsti hluti stuðningsmanna þessa vilja fá nýjan knattspyrnustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×