Enski boltinn

Bruce býst við að vera rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Bruce er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Newcastle United.
Steve Bruce er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Newcastle United. getty/Jack Thomas

Næsti leikur Steves Bruce verður hans þúsundasti á stjóraferlinum. Hann er ekkert endilega viss um að hann nái þeim áfanga sem stjóri Newcastle United.

Yfirtaka Sádí-Arabanna á Newcastle gekk í gegn í gær eftir átján mánaða meðgöngutíma. Þeir greiddu 305 milljónir punda til að eignast meirihluta í enska úrvalsdeildarliðinu.

Bruce hefur verið stjóri Newcastle undanfarin tvö ár. Það kæmi honum þó ekkert á óvart ef hann yrði ekki mikið lengur í starfi.

„Ég vil halda áfram. Ég vil sýna nýju eigendunum hvers ég er megnugur en þú verður að vera raunsær og þeir vilja kannski nýjan mann í brúnna. Nýir eigendur vilja venjulega nýjan stjóra. Ég er búinn að vera nógu lengi í þessu til að skilja það,“ sagði Bruce.

Hann er ekki hátt skrifaður hjá stuðningsmönnum Newcastle sem myndu fæstir sjá mikið á eftir honum. Á fyrsta tímabili Bruces við stjórnvölinn endaði Newcastle í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á síðasta tímabili varð liðið í 12. sæti. Illa hefur gengið í upphafi þessa tímabils og Newcastle er án sigurs í nítjánda og næstneðsta sætinu.

Bruce hefur stýrt liðum í 999 leikjum á stjóraferlinum. Hann er ekki viss um að hann nái tímamótaleiknum sem stjóri Newcastle. Næsti leikur liðsins er gegn Tottenham um þarnæstu helgi.

„Það er ekki undir mér komið. Ég sætti mig við það sem verður. Ég verð að bíða með að ræða þetta þar til rétti tíminn er kominn,“ sagði Bruce.

„Ef ég næ ekki þúsundasta leiknum gegn Spurs gætir þú sagt að þetta kæmi aðeins fyrir mig en það væri ekki grimmilegt. Þetta er bara fótbolti.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.